Skip to main content
  • Þórunn heiðursfélagi

  • Norrænir vinadagar 2018

  • Ittoqqortoormiit

    Til minningar

                     Elín Sigurjónsdóttir  

    Elín 90 ára Níunda tugnum fagnað í góðra vina hópi.

    Kveðja

    Að hryggjast og gleðjast hér um fáa daga, að heilsast og kveðjast,- Það er lífsins saga.

    (Páll J. Árdal)

    Kær systir okkar í Soroptimistaklúbbi Akureyrar, Elín Sigurjónsdóttir kennari lést mánudaginn 29. mars síðastliðinn.

    Elín var fædd að Búðum í Fáskrúðsfirði 12. september 1929. Hún lauk kennaraprófi árið 1951 og var Barnaskóli Akureyrar hennar starfsvettvangur í hart nær 50 ár. Elín var afburða kennari og minnast nemendur og samstarfsfólk hennar með hlýhug og þakklæti. Elín var einstaklega fróð og óspör að miðla af þekkingu sinni og reynslu. Við sem þetta skrifum nutum þess allar í ríkum mæli að geta leitað í hennar gagnabrunn fyrstu starfsárin okkar. Elín var mjög hjálpsöm og alltaf fús að leggja að mörkum ef einhver var í vanda eða átti um sárt að binda.

    Elín gekk til liðs við Soroptimistaklúbb Akureyrar í febrúar 1987 og var gerð að heiðursfélaga 2007. Hún gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir klúbbinn okkar og sat í stjórn bæði sem ritari og meðstjórnandi. Í klúbbstarfinu nutum við fórnfýsi Elínar sem ávallt var til þjónustu reiðubúin, hvort heldur var að lesa ljóð og fróðleik á fundum, eða föndra og baka hnallþórur við hin ýmsu tækifæri.

    Hún var mikil íþróttakona og var umhugað um heilbrigðan lífsmáta og geislandi viðmót hennar orð og æði smitaði bæði nemendur og samstarfsfólk.

    Elín var hress alveg fram á síðustu stundu og aldrei brást minnið henni og þakkaði hún áhuga sínum á krossgátum hversu vel það entist.

    Elín er ein þeirra kvenna sem vann sín verk í hljóði en skildi eftir sig spor sem seint gleymast.

    Í sandinum átti ég eftir

    ástkæru sporin þín.

    En regnið grét, uns þau grófust,

    geisli þar yfir skín.

     

    Í sál minni ógleymd á ég

    að eilífu brosin þín.

    Þau grafast ei, þó ég gráti,

    • geisli þar yfir skín.

    (Hulda)

    Um leið og Soroptimistaklúbbur Akureyrar þakkar Elínu fyrir allt það sem hún gaf okkur og samfélaginu sendum við fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

    Fyrir hönd klúbbsystra, Helga, Ragnheiður Ólafs og Lína.