Skip to main content
  • Þórunn heiðursfélagi

  • Norrænir vinadagar 2018

  • Ittoqqortoormiit

    Alheimsráðstefna í Kuala Lumpur

    Sigríður, Laufey og Margrét

    Alheimsráðstefna Soroptimista í Kuala Lumpur, 19. til 21. júlí 2019                                                                          Fleiri myndir

    Það voru níu íslenskir Soroptimistar ásamt eiginmönnum sem ferðuðust til Kuala Lumpur, 11 ½ klst flug frá London. Kuala Lumpur er stæðsta borg Malasíu sem og höfuðborg hennar. Borgin hefur verið endurbyggð að miklu leiti og er í dag glæsileg borg með skýjakljúfum upp í himinn. Um 860 konur frá 55 löndum og fjórum heimshlutasamböndum voru mættar á ráðstefnuna.

    Ráðstefnan byrjaði á föstudagsmorguninn með opnunarathöfn þar sem drottning Malasíu var heiðursgestur. Áður en drottningin mætti þá var farið yfir siðareglur sem við áttum að fylgja. Þar á meðal máttum við ekki snúa afturendanum í drottninguna heldur bakka frá henni.  Drottningin var kynnt með nafni eða sínum u.þ.b. 20 nöfnum. ?

    Fánaathöfn þar sem 125 lönd voru kynnt, Hafdís Karlsdóttir, verkefnastjóri hjá SI var fánaberi Íslands. Allir fánaberarnir gengu upp á svið og hneigðu sig fyrir drottningunni. Að því loknu tók Mariet forseti SI til máls. Hún sagði það tilhlökkun árið 2020 þegar augu heimsins munu snúa að 25 ára afmæli Peking-yfirlýsingarinnar um jafnrétti kynjanna og spurningarinnar; hefur heimurinn náð framförum fyrir konur og stúlkur? Einnig talaði hún um áherslur sínar á konur, vatn og forystu. Hún sagði líka frá því að í apríl 2020 er gert ráð fyrir því að fimmta heimshlutasamband SI verði stofnað í Afríku, SIAF.

    Næst steig drottningin upp á sviðið klædd hvítu, (tákn sorgar fyrir nýlega látinn tengdaföður hennar). Hún talaði m.a. um að hún væri ekki mikið fyrir siðareglur og fékk konur til að slaka á og hlægja. Næst á dagskrá var sýning listamanna sem dönsuðu og spiluðu á trommur en áður en þeir stigu á svið þá gekk drottningin ásamt velvöldum Soroptimistum inn á sviðið og trommuðu þær við mikinn fögnuð gesta.

    Eftir kaffipásu talaði forseti gestgjafanna, SISWP (SI Suðvesturs Kyrrahafs), mjög skemmtileg og litrík kona sem var keyrð upp á svið í hjólastól en stóð fljótlega upp á öðrum fæti og með var spelku á hinum fætinum. Hún bauð okkur velkomnar með kærleika og gleði og sagðist elska okkur allar.

    Yvonne Simpson, fráfarandi alheimsforseti var með opnunarræðu. Eftir henni kom gestafyrirlesari, kona sem hefur starfað sem stríðsfréttaritari fyrir Sunday Times. Var sorglegt að heyra hennar frásögn um nauðganir og frelsissviftingu kvenna í stríði. Hún hefur heimsótt mörg stríðssvæði og telur að menntun sé lykillinn að því að fólk hafi möguleika í lífinu.

    Eftir hádegismat var haldið áfram með áhugavekjandi fyrirlestra sem fjölluðu m.a.um jafnrétti, vatnsþörf og fæðuöryggi. Eftir kaffipásu var umræðuefnið langlífi, lausafjárstaða kvenna og arfleifð. Fyrilestrarnir stóðu til klukkan fimm.

    Klukkan hálf sjö byrjaði „Friendship night“ þar sem eiginmönnum var boðið með. Þema kvöldsins var „Feel The Love“ og klæðnaður í litum ástarinnar. Það var mikið dansað á gólfinu og uppi á sviði. ?

    Laugardagur og sunnudagur voru svipaðir, dagskráin byrjaði kl níu og stóð fram yfir fimm. Forsetar heimshlutasambandanna voru með kynningar á markmiðum sínum, gestafyrirlesarar töluðu um áherslur Soroptimista og umræður voru á eftir þeim.  Báða daganna var boðið uppá fimm vinnustofur (workshops) sem maður valdi á milli. Öll dagskráin mjög áhugavekjandi.

    Á sunnudeginum var  mjög fróðlegur hádegisfyrirlestur sem fjallaði um rétt Múslimskra kvenna (Sisters in Islam). Fyrirlesarinn, múslimstrúuð kona, sem er stofnandi og framkvæmdastjóri alheimshreyfingarinnar fyrir jafnrétti og réttlæti í múslima fjölskyldunni.

    Síðasta klukkutímann voru slitin, verðandi forseti SI, Sharon Fisher (kanadísk, forseti SI 2019-2021), var með kynningu á áherslum sínum. Hún gerði það skemmtilega, líkingin var strætó og leiðin var markmið Sameinuðuþjóðanna og hún bauð okkur öllum að hoppa um borð (The Road to Equality). Sharon Fisher kynnti líka 100 ár afmælishátíð Soroptimistasambandsins í San Francisco 1.-3. október  2021. Þá var kynning á næsta alheimsþingi sem verður í Dublin á Írlandi, júlí 2023. Ráðstefnunni var síðan slitið og konum gefin kostur á að hafa sig til fyrir kvöldið.

    Klukkan 18:30 byrjaði hátíðarkvöldverður og þemað var: Litríkir menningarheimar.

    Þetta var mikil upplifun og líka vinna að taka þátt í svona stórri ráðstefnu og gaman að hitta allar þessar flottu konur. Ég hitti meðal annarra fjórar konur frá vinaklúbbi okkar Akureyrarsystra, SI Stockholm-City og er ég komin í tölvupóstsamband við tvær þeirra. Þar að auki var ein þeirra í sömu ferð og  við þrjár ferða-systur frá Íslandi til eyjarinnar Borneo og væri sú ferð efni í nýja frásögn. Þetta er ein af mörgum ferðum sem við þrjár Sorosystur höfum farið saman ásamt eiginmönnum okkar, auk mín eru það Sigríður Þórarinsdóttir (SI Snæfellsnesi) og Margrét Helgadóttir (SI H&G).

    Systrakveðja, Laufey Guðrún Baldursdóttir

    Fleiri myndir