Skip to main content
 • Þórunn heiðursfélagi

 • Norrænir vinadagar 2018

 • Ittoqqortoormiit

  Roðagyllum heiminn - ályktun

  Roðagyllt kertiAlþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

  Dagana 25. nóvember til 10. desember fer fram árlegt 16 daga átak á Íslandi og á heimsvísu gegn kynbundnu ofbeldi til að vekja athygli á að ofbeldi gegn konum er útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum. Markmiðið er hvetja til umræðu og vitundarvakningar um að samfélagið standi saman gegn kynbundnu ofbeldi og knýja á um afnám þess.

  Í ár beinist átakið að áhrifum kóvít-19 á kynbundið ofbeldi. Í kjölfar heimsfaraldursins hefur orðið mikil aukning á ofbeldi gegn konum og stúlkum hér á landi og erlendis og þá sérstaklega heimilisofbeldi.

  Aðgerðir til að ná tökum á faraldrinum valda félagslegri einangrun og spenna og álag eykst út af áhyggjum af heilsu, öryggi og fjárhagslegri afkomu. Konur einangrast á heimilum með gerendum og eiga erfitt með að leita sér aðstoðar til að komast í burtu því stuðningskerfið er rofið. Þetta eru kjöraðstæður fyrir drottnun og ofbeldi fyrir luktum dyrum og skuggafaraldur kóvít-19.

  Bæði konur og karlar verða fyrir kynbundnu ofbeldi en konur og stúlkur eru samt yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem verða fyrir slíku ofbeldi. Það var áður umborið í skjóli einkalífsins en er nú viðurkennt sem ein af verstu birtingarmyndum kynjamisréttis. Kynbundnu ofbeldi er viðhaldið af félagslegum viðmiðum og staðalímyndum sem mismuna á grundvelli kyns og veikja stöðu kvenna og stúlkna.

  Sameinuðu þjóðirnar hvetja ríkisstjórnir heims til að hafa aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi sem lykilþátt í viðbragðsáætlunum sínum gegn kóvít-19, m.a. með því að beina fjármunum að úrræðum og stoðþjónustu við þolendur, senda skýr skilaboð um að samfélagið líði ekki kynbundið ofbeldi og að réttarkerfið sjái til þess að gerendur séu gerðir ábyrgir gjörða sinna.

  Tryggja þarf mannréttindi og grundvallarfrelsi kvenna til að ná tökum á skuggafaraldri kóvít-19.

  Stöndum saman um að rjúfa þagnarmúrinn um kynbundið ofbeldi og stuðlum að vitundarvakningu um að við sem samfélag eigum að hafna því.

  Soroptimistaklúbbur Akureyrar, Zontaklúbbur Akureyrar og Zontaklúbburinn Þórunn hyrna

  hof  Roðagylltur himininn