Skip to main content
  • Þórunn heiðursfélagi

  • Norrænir vinadagar 2018

  • Ittoqqortoormiit

    Norrænir vinadagar í Svíþjóð

    Norrænir vinadagar í Kalmar / Svíþjóð, 22. september til 25. september 2022


    Við vorum þrjár úr Akureyrarklúbbnum sem fórum á norræna vinadaga til Kalmar, Arna Rún, Laufey og Ragnheiður G.. Eiginmennirnir Sigmundur og Árni fengu að fljóta með Örnu og Laufeyju. Ferðin hófst með flugi frá Akureyri til Kaupmannahafnar. Á Kastrup hittum við hinar íslensku systurnar sem komu frá Keflavík um svipað leiti. Systur úr Kalmarklúbbnum tóku á móti okkur á flugvellinum og farið var í rútu til Kalmar. Þegar þangað var komið skráðum við okkur inn á hótelið og á sama stað gátum við skráð okkur og sótt gögn fyrir ráðstefnuna. Kalmar systur voru búnar að panta fyrir hópinn kvöldmat á þremur mismunandi veitingarstöðum í nágrenninu. Við Árni völdum að fara á Ítalskan og hittum þar Catherine Westling leikkonu, sem er okkur góðkunn, hún var með einleiks-leikþátt hjá okkur á Norrænum vinadögum 2018. Catherine er í Kalmarsklúbbnum og ein aðalsprautan í undirbúningsnefndinni. Það var gaman að hitta hana aftur og rifja upp fyrri kynni. Daginn eftir, föstudagurinn, var rólegur við Arna Rún og eiginmennirnir okkar Sigmundur og Árni fórum í göngutúr og könnuðum nágrennið. Seinnipartinn var síðan skoðurnarferð með leiðsögumanni um miðborgina. Kalmar er falleg borg með mikla sögu sem gaman var að kynnast. Um kvöldið var „Frendship evening“ í gömlu leikhúsi - borðað, sungið og dansað og „minglað“. Á laugardeginum var fundað frá 9 til 16. Þemað var „Women Work Wellbeing – Gender Equality and Peace“. Mættar voru 240 systur frá 13 löndum og 72 klúbbum. Frá Íslandi var vel mætt 47 systur og síðan eiginmennirnir okkar tveir. Nokkrir eiginmenn voru með systrum, þeir tóku þátt í öllu nema fundinum. Fundurinn var hinn ágætasti þar sem talað var um jákvæðni og frið og hvað menntun kvenna hefur þar mikil áhrif. Í lok fundar buðu fulltrúar frá Danmörku til næstu vinadaga, 2024.
    Um kvöldið var veisla í Kalmar kastala sem var reistur fyrir 800 árum, tilkomumikill bæði að innan og utan og er kastalinn táknmynd Kalmars. Gestum var raðað til borðs og fékk ég og Árni að sitja saman en Arna og Sigmundur lentu á sitthvoru borðinu. Arna var ánægð með borðfélaga sinn sem var Carolien Demey forseti SIE, skemmtileg kona og spjölluðu þær mikið, en Sigmundur var ekki eins heppinn. Maturinn var ágætur og boðið var uppá klassíska tónlist, selló og fiðlu, sem skemmtiatriði.
    Á sunnudeginum fórum við Árni í skipulagða, fjögra tíma, skoðunarferð til Öland. Farið var með rútu frá Kalmar yfir 6 km laga brú og ekið um suðurhluta eyjarinnar „Stora Alvaret“ sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Leiðsögumaður í okkar rútu var Catherine Westling sem sagði okkur frá Alvaret sem er kalksteinsslétta og þekkt fyrir margar sjáldgæfar plöntutegundir og fjölskrúðugt fuglalíf. Öland er vinsæll ferðamannastaður og margar fallegar strendur er á eyjunni. Á miðri leið um Alvaret var stoppað við gamalt samkomuhús til að matast. Nokkrir eiginmenn tóku á móti okkur og þjónuðu til borðs. Fengum við bakkamat, kjúkling og meðlæti, mjög vel útilátið, vonandi gátu húsdýrin í sveitinni borðað afgangana.
    Norrænu vinadagarnir sem áttu að vera í Noregi 2020 féllu niður vegna Kórónuveirunnar. Klúbburinn í Kalmar sá alfarið um fundinn eins og Akureyrar-klúbburinn gerði fjórum árum áður. Fékk ég nokkrumsinnum að heyra hvað það hefði verið gaman á Akureyri og að erfitt væri að ná sama standard á vinadagana eins og þeir voru á Íslandi.

    Kveðja, Laufey G. Baldursdóttir