Skip to main content

Fyrsta mynd

Önnur mynd

Þriðja mynd

    Gróðursetning í júní í lundi Soroptimistasambands Íslands í Heiðmörk

    Systur í Reykjavíkurklúbbi mættu í Heiðmörkina til að gróðursetja 40 plöntur í tilefni af 100 ára afmæli Alþjóðasambands Soroptimista. Birki, reynir, gráelrir, rauðelrir og sitkagreni varð fyrir valinu. Við undirbúning verkefnisins fengum við góða ráðgjöf hjá Auði Kjartansdóttur hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur og Þórólfi Jónssyni garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar. Eftir vinnutörnina nutu systur góðra veitinga í lundinum okkar góða.

    Samningar undirritaðir í júní vegna styrktarverkefna

    Í byrjun júní var skrifað undir samninga vegna tveggja styrktarverkefna Soroptimistaklúbbs Reykjavíkur. 

    Stefanía Birna Arnardóttir hjá Geðheilsuteymi – Fjölskylduvernd skrifaði undir samning um styrk frá Soroptimistaklúbbi Reykjavíkur. Styrkurinn verður nýttur til að halda fræðslunámskeið fyrir verðandi og nýorðna foreldra um góð samskipti og tengslamyndun við ungbarnið. Styrkurinn er ágóði af samkomunni Góðgerði sem Reykjavíkurklúbbur hélt 5. mars 2020.

    Reykjavíkurklúbbur hefur styrkt Miðstöð foreldra og barna (nú Geðheilsuteymi – Fjölskylduvernd hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins) síðastliðin þrjú ár sem varð til þess að þróuð var hópmeðferð fyrir verðandi mæður sem hafði verið vísað til miðstöðvarinnar vegna vanlíðunar eða áfallasögu. Þrír meðferðarhópar hjá miðstöðinni nutu þjónustu vegna styrksins. Nú er verið að undirbúa námskeið fyrir verðandi foreldra um hvernig megi efla samskipti við ungbarnið og stuðla þannig að öruggri tengslamyndun þess.

    Júlía Margrét Rúnarsdóttir skrifaði undir samning fyrir hönd Hjálparstarfs kirkjunnar. Styrkurinn rennur til verkefnis fyrir konur á örorku með börn á framfæri og nefnist það Stattu með sjálfri þér – virkni til farsældar. Styrkurinn er ágóðinn af rafrænni Góðgerði Reykjavíkurklúbbs sem var haldin 25. mars 2021 auk styrks úr Málefnasjóði klúbbsins.

    Fimmtán konur taka nú þátt í verkefninu sem hófst í september 2020 en þátttaka er konunum að kostnaðarlausu. Auk viðtalstíma hjá félagsráðgjafa hittast konurnar á fræðslufundum einu sinni í viku en dagskrá fundanna er ákveðin í samráði við konurnar sjálfar. Styrkurinn frá Reykjavíkurklúbbi verður nýttur til að styrkja konurnar til að sækja námskeið að eigin vali.

    Maífundur

    Margrét Rögnvaldsdóttir, formaður laga- og reglugerðanefndar, sagði frá störfum nefndarinnar. Mikið hefur mætt á laganefndinni síðustu misseri vegna fyrirhugaðra lagabreytinga hjá Evrópusambandi Soroptimista, SIE og margir fundir hafa verið haldnir með sendifulltrúum á Norðurlöndunum. Frá síðustu áramótum hefur Margrét einnig tekið þátt í mánaðarlegum málstofum SIE. 

    Maífundur var fjarfundur og Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar hélt fræðandi erindi fyrir okkur um skipulag á Íslandi í fortíð, nútíð og framtíð. Hún fór yfir söguna og sagði okkur frá skipulagsgerð sem fæst við ráðstöfun lands til nýtingar og verndar, útfærslu einstakra mannvirkja og ákvarðanir um heimila starfsemi og nýtingu mannvirkja, lóða o.s.frv. Horft er til langs tíma og eru almannahagsmunir og sjálfbær þróun lögð til grundvallar.

    Aprílfundur

    Systur í Reykjavíkurklúbbi fengu til sín góðan gest á aprílfundinn. Laufey I. Guðmundsdóttir, einhverfuráðgjafi og sjálfstætt starfandi hjá Laufgun, hélt athyglisvert erindi um einhverfueinkenni hjá fullorðnum með áherslu á stúlkur og konur. Laufey hefur sinnt fræðslu á þessu sviði, ritaði m.a. kafla í bókina Litróf einhverfunnar og tók þátt í gerð myndarinnar Að sjá hið ósýnilega.

    Marsfundur

    Systur hittust á fundi í raunheimum í byrjun mars og var það kærkomin tilbreyting frá fjarfundum. Við fengum að hlusta á fróðlegt erindi um sögu alþjóðlegs baráttudags kvenna sem systir okkar Guðbjörg Linda Rafnsdóttir tók saman. Guðlaug Þ. Kristjánsdóttir tók að sér flytja erindið á fundinum. Erindi Guðbjargar Lindu birtist síðan í aprílhefti Fregna. 

    Fyrirlesari kvöldsins var Hjördís Þorgeirsdóttir, félagsfræðikennari við Menntaskólann við Sund og fjallaði hún um starfendarannsóknir kennara við skólann. Hún fór m.a. yfir aðferðafræði starfendarannsókna, umgjörð þeirra og áhrif í skólum. Þessar rannsóknir eru afskaplega góð leið fyrir starfsþróun og eru mikið notaðar í kennslu. Starfendarannsóknir efla þverfaglegt samstarf innan skólans og stuðla að breytingum. Þær veita kennaranum styrk, færa kennarann nær nemandanum og koma í veg fyrir kulnun. Ný þekking verður til hjá kennurum og innan skólans.