Skip to main content

Fyrsta mynd

Önnur mynd

Þriðja mynd

    Febrúarfundur

    Vilborg Oddsdóttir aðstoðarverkefnastjóri kynnti nýtt styrktarverkefni Reykjavíkurklúbbs hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, Stattu með sjálfri þér – virkni til farsældar, fyrir konur á örorku með börn á framfæri.

    Áætlað hafði verið að heimsækja Vinnumálastofnun en vinnustaðafundurinn var fjarfundur í ár. Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar hélt áhugavert erindi um starfsemi stofnunarinnar og þau gríðarmiklu og krefjandi verkefni sem starfsmenn hennar hafa sinnt á tímum heimsfaraldurs.

    Janúarfundur

    Þórdís Kristjánsdóttir, doktorsnemi í lífverkfræði við Háskóla Íslands, hélt fróðlegt erindi um nýtingu baktería til framleiðslu verðmætra efna úr ódýrum hráefnum, með aðstoð tölva. Það var fróðlegt að fá innsýn í þetta áhugaverða efni. Þórdís fékk styrk frá Evrópusambandi Soroptimista til að vinna að doktorsverkefninu sínu og sækja alþjóðlegar ráðstefnur sem því tengdust

    Jólafundur

    Á jólafundi, sem var fjarfundur að þessu sinni, var afhentur styrkur til Kvennaathvarfsins sem Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra tók á móti. Hún hefur starfað lengi hjá Kvennaathvarfinu og gaf okkur góða innsýn í það góða starf sem þar er unnið og hvernig styrkurinn yrði nýttur. Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur sagði okkur frá rithöfundaferlinum og las úr nýjustu bókinni sinni en hún kýs að kalla bækurnar sínar fjölskyldusögur.

    Septemberfundur

    Systur voru ánægðar að hittast á Nauthóli eftir sumarleyfi. Þórdís Sigurðardóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Úganda, hélt fræðandi erindi um þróunarsamvinnu Íslands, markmið hennar og áherslur og það umhverfi sem starfað er í. Í lokin var vikið að þeim nýja veruleika sem blasir við í þróunar- og mannúðarstarfi í skugga heimsfaraldurs og hvernig tekist er á við hann.

    Herdís Sveinsdóttir, deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar og systir í Reykjavíkurklúbbi, hélt erindi á maífundinum (2020)

    Systur í Reykjavíkurklúbbi voru ánægðar að hittast á fundi eftir langt hlé. Fyrirlesari var Herdís Sveinsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar. Hún fjallaði m.a. um ábyrgð og faglega forystu deildarforseta og kennslu í hjúkrunarfræði á öllum stigum sem hefur verið í örri þróun undanfarin ár. Þá sagði Herdís okkur frá nýjum áskorunum á vormisseri vegna kórónuveirunnar, t.d. þurfti að endurskipuleggja allt verknámið vegna mikillar smithættu á sjúkrastofnunum.

    Maífundur SR Herdís Sveinsdóttir fyrirlestur