Í byrjun júní var skrifað undir samninga vegna tveggja styrktarverkefna Soroptimistaklúbbs Reykjavíkur.
Stefanía Birna Arnardóttir hjá Geðheilsuteymi – Fjölskylduvernd skrifaði undir samning um styrk frá Soroptimistaklúbbi Reykjavíkur. Styrkurinn verður nýttur til að halda fræðslunámskeið fyrir verðandi og nýorðna foreldra um góð samskipti og tengslamyndun við ungbarnið. Styrkurinn er ágóði af samkomunni Góðgerði sem Reykjavíkurklúbbur hélt 5. mars 2020.
Reykjavíkurklúbbur hefur styrkt Miðstöð foreldra og barna (nú Geðheilsuteymi – Fjölskylduvernd hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins) síðastliðin þrjú ár sem varð til þess að þróuð var hópmeðferð fyrir verðandi mæður sem hafði verið vísað til miðstöðvarinnar vegna vanlíðunar eða áfallasögu. Þrír meðferðarhópar hjá miðstöðinni nutu þjónustu vegna styrksins. Nú er verið að undirbúa námskeið fyrir verðandi foreldra um hvernig megi efla samskipti við ungbarnið og stuðla þannig að öruggri tengslamyndun þess.
Júlía Margrét Rúnarsdóttir skrifaði undir samning fyrir hönd Hjálparstarfs kirkjunnar. Styrkurinn rennur til verkefnis fyrir konur á örorku með börn á framfæri og nefnist það Stattu með sjálfri þér – virkni til farsældar. Styrkurinn er ágóðinn af rafrænni Góðgerði Reykjavíkurklúbbs sem var haldin 25. mars 2021 auk styrks úr Málefnasjóði klúbbsins.
Fimmtán konur taka nú þátt í verkefninu sem hófst í september 2020 en þátttaka er konunum að kostnaðarlausu. Auk viðtalstíma hjá félagsráðgjafa hittast konurnar á fræðslufundum einu sinni í viku en dagskrá fundanna er ákveðin í samráði við konurnar sjálfar. Styrkurinn frá Reykjavíkurklúbbi verður nýttur til að styrkja konurnar til að sækja námskeið að eigin vali.