Marsfundur
Systur hittust á fundi í raunheimum í byrjun mars og var það kærkomin tilbreyting frá fjarfundum. Við fengum að hlusta á fróðlegt erindi um sögu alþjóðlegs baráttudags kvenna sem systir okkar Guðbjörg Linda Rafnsdóttir tók saman. Guðlaug Þ. Kristjánsdóttir tók að sér flytja erindið á fundinum. Erindi Guðbjargar Lindu birtist síðan í aprílhefti Fregna.
Fyrirlesari kvöldsins var Hjördís Þorgeirsdóttir, félagsfræðikennari við Menntaskólann við Sund og fjallaði hún um starfendarannsóknir kennara við skólann. Hún fór m.a. yfir aðferðafræði starfendarannsókna, umgjörð þeirra og áhrif í skólum. Þessar rannsóknir eru afskaplega góð leið fyrir starfsþróun og eru mikið notaðar í kennslu. Starfendarannsóknir efla þverfaglegt samstarf innan skólans og stuðla að breytingum. Þær veita kennaranum styrk, færa kennarann nær nemandanum og koma í veg fyrir kulnun. Ný þekking verður til hjá kennurum og innan skólans.