Skip to main content

Fyrsta mynd

Önnur mynd

Þriðja mynd

    Umsækjandi frá Íslandi fékk styrk frá Soroptimistasystrum í Hollandi

    Það er ánægjulegt að segja frá því að umsækjandi frá Íslandi, Renata Emilsson Peskova, fékk styrk frá Vrouwenstudiefonds Soroptimisten í Hollandi. Renata stundar doktorsnám við Deild menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði HÍ og hefur einnig sótt um styrk frá Evrópusambandi Soroptimista. Stoð og stytta Renötu í umsóknarferlinu er Sigrún Klara Hannesdóttir, fyrrverandi formaður í Reykjavíkurklúbbi. Einnig hefur Anh-Dao Katrín Tran, systir í Reykjavíkurklúbbi, hjálpað Renötu með ráðum og dáð.

    Frétt frá 15. mars 2020: Aðalbjörg Guðmundsdóttir systir í Reykjavíkurklúbbi 100 ára

    Aðalbjörg Guðmundsdóttir 100 ára 15.mars 2020

    Aldursforsetinn okkar, Aðalbjörg Guðmundsdóttir, fagnar hundrað ára afmæli í dag. 

    Aðalbjörg starfaði sem grunnskólakennari og hún var stofnformaður í Soroptimistaklúbbi Keflavíkur 1975. Hún flutti sig yfir í Reykjavíkurklúbbinn 1979 og hefur hún gegnt mörgum embættum í gegnum tíðina. Aðalbjörg var varaforseti Landssambands Soroptimista, hún hefur starfað sem ritari, gjaldkeri og fulltrúi hjá Reykjavíkurklúbbnum og hún hefur starfað í ýmsum nefndum, m.a. í fjáröflunarnefnd, sjóðanefnd og móttökunefnd. 

    Dóttir Aðalbjargar, Margrét Rögnvaldsdóttir, systir í Reykjavíkurklúbbi, skipulagði fyrir tveimur árum glæsilega systraferð um Melrakkasléttu og Langanes. Þá fengu systur úr Reykjavíkurklúbbi höfðinglegar móttökur hjá Aðalbjörgu á ættaróðalinu á Harðbak á Melrakkasléttu. Aðalbjörg var gerð að heiðursfélaga í klúbbnum árið 2006.

    Við óskum Aðalbjörgu innilega til hamingju á þessum merku tímamótum

    Ásta Snorradóttir, lektor við Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, flutti erindi á janúarfundinum

    Ásta Snorradóttir, félagsfræðingur og systir í Reykjavíkurklúbbi, hélt fróðlegt erindi á janúarfundinum okkar. Yfirskriftin var: Framtíð án kynbundins ofbeldis: Hvernig má bæta úr málum á vinnustöðum? Hún sagði okkur frá nýrri umfangsmikilli rannsókn á einelti og kynferðislegri og kynbundinni áreitni á vinnustöðum á Íslandi sem var unnin fyrir félagsmálaráðuneytið. Ásta hélt erindi um sama efni á stórri ráðstefnu í Hörpu í september á síðasta ári, Metoo-ráðstefnunni.

    Umfjöllunarefnið í erindi Ástu var nátengt átaki Soroptimistasambandsins gegn kynbundnu ofbeldi – Roðagyllum heiminn – sem hófst 25. nóvember 2019 og stóð í 16 daga.

    Janúarfundur SR 2020 - Ásta Snorradóttir

     

    Jólafundurinn 2019

    Jólafundur SR 2019Jólafundurinn var haldinn á Fjallkonunni þar sem systur nutu góðra veitinga undir jóladagskránni. Við ræddum um átakið okkar Soroptimistasystra gegn kynbundnu ofbeldi, Roðagyllum heiminn. Systur í Reykjavíkurklúbbi munu halda áfram að styrkja ungar stúlkur og konur í erfiðum aðstæðum og viðkvæmri stöðu til menntunar og sjálfstæðis. 

    Sólveig Pálsdóttir rithöfundur las úr nýjustu bókinni sinni, Fjötrum, og sagði okkur frá bakgrunni sínum og ástæðum þess að hún hóf rithöfundarferilinn. Tónlistarmaðurinn Þráinn Baldvinsson skemmti okkur síðan með gítarleik og söng.

    Anh-Dao Katrín Tran, aðjúnkt við Deild menntunar og margbreytileika í Háskóla Íslands, flutti erindi á nóvemberfundinum

    Anh-Dao Katrín Tran, fjölmenningarfræðingur og systir í Reykjavíkurklúbbi, flutti fróðlegt  erindi að loknum aðalfundarstörfum á nóvemberfundinum. Yfirskriftin var: Vannýtt auðlind: Nemendur af erlendum uppruna í íslenskum framhaldsskólum.

    Anh Dao hefur rannsakað ástæður þess að nemendur af víetnömskum uppruna hafa tilhneigingu til þess að hætta námi í íslenskum framhaldsskólum og nefndi hún m.a. ónóga kunnáttu í íslensku máli, félagslega einangrun, lágt sjálfsmat og litla hvatningu. Anh-Dao lýsti því hvernig væri hægt að snúa þessari neikvæðu þróun við með því að beita aðferðum fjölmenningarfræðinnar og vinna með styrkleika nemendanna, fyrra nám og menningarlegan bakgrunn.


    Ahn Dao fyrirlestur í nóv. 2020