Skip to main content

Bakka- og Selja systur á jólafundi 2017

Sumarlegar göngusystur

Þjóðarblómið holtasóley

    Jólaglaðningur í Skjólið

    Þann 19. desember 2023 fóru verkefnastjórarnir okkar, þær Júlíana Erlendsdóttir og Kristín Norðfjörð, í Skjólið sem er athvarf fyrir heimilislausar konur.  Þær færðu Skjólinu snyrtivörur, 25 handprjónaða lopavettlinga hver með sérstöku mynstri, sem Kristín Sigurjónsdóttir prjónaði, handstúkur og ennisbönd, sem Barbara heklaði, ásamt konfektkassa sem forstöðukonurnar Hrönn og Rósa gætu deilt með konunum á aðventunni.

    Eitt aðalmarkmið soroptimista er að vinna að bættri stöðu kvenna og samkenndin skiptir svo miklu máli því eins og stendur í ljóðinu eftir Úlf Ragnarsson, hér að neðan, getur fegursta gjöfin sem þú gefur verið gjöfin sem varla sést.

    Ekki veit ég hvort þú hefur
    huga þinn við það fest
    að fegursta gjöfin sem þú gefur
    er gjöfin sem varla sést.

    Með þessari frétt sendum við óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.

    Jólafundur klúbbsins 2023

    Jólafundurinn 6. desember var með hefðbundnu sniði og sáu systur um matseldina. Gestur fundarins var María Björk Ingvadóttir frá Akureyrarklúbbnum. Hún sagði m.a. frá mótun hlutverks talskonu soroptimista og mikilvægi þess að soroptimistar láti vita af öllu því góða sem þeir vinna að.

    Séra Ólafur J. Borgþórsson flutti okkur hugvekju og sungum við nokkur jólalög. Formaður bar okkur kveðju Lovísu Christiansen frá Hafnarfjarðar- og Garðabæjarklúbbi, en hún sendi okkur kver með ljóðinu Aðventuljós eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson. Sonur Lovísu myndskreytti og var kverið selt til styrktar Krísuvíkursamtökunum.
    Systur skiptust á jólapökkum og þar með lauk síðasta fundi vetrarins.

    Kynning á sprotafyrirtækinu HEIMA

    Klúbbfundurinn 13. nóvember 2023 var sameiginlegur með Árbæjarklúbbi. Gestur fundarins var Alma Dóra Ríkarðsdóttir, sem sagði frá HEIMA, íslensku sprotafyrirtæki, sem er að þróa smáforrit fyrir fjölskyldur til að hjálpa þeim að skipta heimilisverkunum jafnar á milli sín á einfaldan, skemmtilegan og jafnréttiseflandi máta. Alma Dóra er dóttir Friðbjargar Sifjar Grjetarsdóttur systur okkar. Umfjöllunarefnið fellur undir flokkinn Valdefling.
    Kristín Sjöfn í Árbæjarklúbbbi sagði frá áttræðisafmælisdegi sínum og Árbæjarsystur færðu stofnfélögum sínum rósir. Góðar umræður sköpuðust, en systur drógu um sæti svo það yrði góð blanda úr hvorum klúbbi á hverju borði.

    Kynning á Evolytes

    Á klúbbfundi þann 11. október 2023 fengum við kynningu á sprotafyrirtækinu Evolytes.  Íris Eva Gísladóttir, rekstrarstjóri og einn af stofnendum Evolytes, sagði okkur frá fyrirtækinu og verkefnum þess.  Þetta er menntafyrirtæki sem hannar námsefni, nokkurskonar námsleik, í stærðfræði sem nýtt er gegnum netið. Umfjöllunarefni fellur undir flokkinn Menntun.

    Fundurinn var jafnframt kjörfundur. Fimm gestir sátu fundinn, en systur buðu með sé r konum sem höfðu áhuga á að kynnast samtökunum.

    Erla Svanhvít gerði  grein fyrir efni haustfundarins að Laugarbakka og sýndi glærur um verkefni Soroptimista og tengsl þeirra við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Hún gerði jafnframt grein fyrir alþjóðaþinginu í Dublin og 16 daga átakinu gegn kynbundnu ofbeldi.