Skip to main content

LÁTINNA SYSTRA Í BAKKA- OG SELJAKLÚBBI MINNST

 

Greta_mynd.jpg

Við systur í Soroptimistaklúbbi Bakka og Selja minnumst heiðursfélaga okkar Gretu Bachmann af hlýhug og virðingu fyrir ötult starf í þágu Soroptimista og sem góðrar vinkonu til margra ára.

Greta Bachmann gekk í Soroptimistaklúbb Bakka og Selja árið 1981, þegar klúbburinn var tæplega eins árs og var því iðulega talin með í stofnfélagahópnum. Hún tók strax að sér stjórnunarstörf innan klúbbsins og var formaður 1988-90. Hún lét þar ekki staðar numið og tók að sér flest þau embætti sem í boði voru og sat í mörgum nefndum innan klúbbsins. Alls staðar vann hún ötullega að málefnum Soroptimista, sem stuðla meðal annars að mannréttindum og félagslegri þróun. Einnig tók hún að sér nefndarstörf fyrir Landssamband Soroptimista og var t.d. í útbreiðslunefnd þegar Snæfellnesklúbbur var stofnaður.

Greta var mikill mannvinur eins og lífsstarf hennar ber vitni um, en hún var líka mikil félagsvera. Fengum við klúbbsystur að njóta elju hennar og umhyggju en hún lagði áherslu á að vináttan og samveran væri mikils virði. Hún var alltaf reiðubúin að rétta hjálparhönd og var driffjöðurin í starfinu um langa hríð. Margs er að minnast, jólaglöggin hennar var ómissandi þáttur í upphafi jólafunda og við minnumst ferðanna á þing og fundi út um allt land.

Eiginmaður Gretu, Magnús Kristinsson, stóð einnig þétt við bak konu sinnar í öllu hennar félagsstarfi svo lengi sem honum var unnt og fengum við svo sannarlega að njóta þess. Þau voru eðalhjón, samhent og yndisleg og hugsum við til þeirra beggja með hlýhug og virðingu.

Blessuð sé minning Gretu Bachmann. 

 

 

Sigga_Sveins_mynd.jpg

Í apríl 2021 lést Sigríður Sveinsdóttir, systir okkar í Bakka- og Seljaklúbbi. Hún var yndisleg systir og er sárt saknað. Minning hennar mun lifa í hug og hjörtum okkar systra hennar.

 

 

 127458948_2817832648464940_2616884664613925152_o.jpg

 Haustið 2020 lést yndisleg systir okkar í Bakka- og Seljaklúbbi, Þyri Dóra Sveinsdóttir. Minning hennar lifir í hug og hjörtum okkar systra. Blessuð sé minning Þyriar Dóru.

 

 

 

Kristín_Jónasdóttir_2.jpgastabjort.jpg

Sumarið 2019 létust tvær yndislegar systur okkar í Bakka- og Seljaklúbbi, þær Kristín Jónasdóttir og Ásta Björt Thoroddsen.  Minning þeirra lifir í hug og hjörtum okkar systra.   Blessuð sé minning þeirra.