Skip to main content

Vorferð í Hrunamannahrepp

Vorferð klúbbsins var farin 31. maí  2023 og var mökum boðið með að venju.  Dagskráin var í umsjón skemmti- og ferðanefndar.

Að þessu sinni var tekin stefna á Hruna í Hrunamannahreppi þar sem klúbbsystir okkar Sigríður Helga Olgeirsdóttur og maður hennar séra Eiríkur Jóhannsson voru búsett í tæp 19 ár.  Eiríkur var leiðsögumaður í ferðinni.

Komið var við í gömlu lauginni að Flúðum þar sem systur höfðu örfund í rútunni, en fengu sér síðan hressingu, dáðust að listaverki Sigríðar Helgu á staðnum og skoðuðu laugina. Haldið var áfram að Hruna, kirkjan, safnaðarheimilið og umhverfi skoðað og sr. Eiríkur greindi frá sögu staðarins. Í lok ferðar var borinn fram kvöldverður á Hótel Fúðum þar sem hótelstýran Margrét Runólfsdóttir tók á móti okkur. Ferðanefnd er þakkað og þá sérsaklega presthjónunum sem gáfu okkur innsýn inn í sveitina sína.

Kirkjukaffi á degi aldraðra

Kirkjukaffið í Seljakirkju á uppstigningardag 2023 var öðru sinni í sameiginlegri umsjón Bakka og Selja klúbbs og Kvenfélags Seljakirkju. Viðburðurinn var afar vel sóttur og veitingar glæsilegar.  Fjöldi gesta er orðinn það mikill á þessum degi aldraðra að þessi tvö félög ráða vart við það ein og sér. Klúbburinn þakkar fyrir aðstöðuna í kirkjunni með því að aðstoða við þennan atburð, en ekki má vanmeta það að hafa alltaf aðgang að safnaðarheimilinu til fundahalda. Verkefnastjórar klúbbsins voru í forsvari þetta árið með dyggri aðstoð systra.

Innra starf klúbbsins

Á klúbbfundi þann 12. apríl 2023 ræddum við innra starf klúbbsins og litum í baksýnisspegilinn. Sex stofnfélagar okkar og þrjár, sem voru stofnfélagar í öðrum klúbbum, skiptu með sér að líta í baksýnisspegilinn og sögðu okkur frá því hvernig umhorfs var í hverfinu okkar og starfinu fyrstu árin, sömuleiðis frá helstu verkefnum og ýmsu áhugaverðu sem gaman var að minnast. Myndasería fékk svo að renna yfir skjáinn.
Systur greiddu síðan atkvæði um hvert skyldi stefna í framtíðinni í verkefnavali og ræddu síðan í hópum um hver næstu skref yrðu.

Alzheimerkaffi

Systur sáu um Alzheimerkaffið 23 .mars 2023 í Hæðargarði. Margar systur lögðu til bakkelsi og/eða voru á staðnum. Jóhanna Friðriksdóttir er tengiliður klúbbsins þakkar systrum fyrir, þeirra framlag. Veitingunum var vel tekið og var nóg handa öllum.

Kynning á Alzheimersamtökunum

Febrúarfundurinn  þann 8. febrúar 2023 hófst með afar áhugaverðu erindi Vilborgar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra Alzheimersamtakanna og Seiglunnar.

Ný systir, Helga Sigurjónsdóttur, var tekin inn í klúbbinn og Vigdís Pálsdóttir var með stutt erindi „Veistu að...?“  og sýndi okkur nokkrar greinar í Fregnum um Heiðmerkurlundinn og dvöl sína með Soroptimistum í Kaliforníu. Síðan voru nokkrar líflegar umræður um mál á döfinni. Umfjöllunarefni erindis fellur undir flokkinn Heilsa og fæðuöryggi.