Skip to main content

Systur gerðar að heiðursfélögum

10. apríl 2024 var sannkallaður hátíðarfundur.
Tvær systur þær Erla Gísladóttir, f. 1934, og Kolbrún Valdimarsdóttir, f. 1938, voru gerðar að heiðursfélögum, en þær eru báðar stofnfélagar í klúbbnum.
Sigrún Þorgeirsdóttir forseti Landssambands Soroptimista var gestur fundarins og flutti erindi um samtökin.
Tvær dótturdætur Ingibjargar Jónasdóttur formanns, Klara Margrét og Maríanna Ívarsdætur, fluttu yndislega tónlist í kirkjunni og gerðu stundina afar hátiðlega.

Ný systir boðin velkomin

Annar fundur starfsársins var haldinn 14. febrúar 2024 og var gestur fundarins Per Ekström eiginmaður Kristbjargar gjaldkera okkar. Hann kynnti fyrir okkur þær ferðir sem hann er að skipuleggja, m.a. til Finnlands, Álandseyja, Noregs og Suður Afríku.

Á fundinum tókum við inn nýja systur, Jóhönnu Ragnarsdóttur skrifstofustjóra, og bjóðum hana hjartanlega velkomna í hópinn.

Aðalfundur janúar 2024

Fyrsti fundur ársins sem jafnframt var aðalfundur fór fram 10. janúar 2024. Ný stjórn tók við 1. janúar og voru fráfarandi stjórnar- og nefndarkonum þökkuð góð störf.

Stjórnina skipa: Ingibjörg Jónasdóttir formaður, Ingibjörg Hrund Þráinsdóttir varaformaður, Ágústa Gísladóttir ritari og Kristbjörg Ásta Ingvadóttir gjaldkeri. Verkefnastjóri er Inga Rún Ólafsdóttir og aðstoðarverkefnastjóri María Þórarinsdóttir.
Fulltrúar eru Jóhanna Friðriksdóttir og Emilía B. Möller.

Ný systir bættist í hópinn og bjóðum við Margréti Dóru Árnadóttur hársnyrti hjartanlega velkomna.

Margrét_Dóra.png

 

Jólaglaðningur í Skjólið

Þann 19. desember 2023 fóru verkefnastjórarnir okkar, þær Júlíana Erlendsdóttir og Kristín Norðfjörð, í Skjólið sem er athvarf fyrir heimilislausar konur.  Þær færðu Skjólinu snyrtivörur, 25 handprjónaða lopavettlinga hver með sérstöku mynstri, sem Kristín Sigurjónsdóttir prjónaði, handstúkur og ennisbönd, sem Barbara heklaði, ásamt konfektkassa sem forstöðukonurnar Hrönn og Rósa gætu deilt með konunum á aðventunni.

Eitt aðalmarkmið soroptimista er að vinna að bættri stöðu kvenna og samkenndin skiptir svo miklu máli því eins og stendur í ljóðinu eftir Úlf Ragnarsson, hér að neðan, getur fegursta gjöfin sem þú gefur verið gjöfin sem varla sést.

Ekki veit ég hvort þú hefur
huga þinn við það fest
að fegursta gjöfin sem þú gefur
er gjöfin sem varla sést.

Með þessari frétt sendum við óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Jólafundur klúbbsins 2023

Jólafundurinn 6. desember var með hefðbundnu sniði og sáu systur um matseldina. Gestur fundarins var María Björk Ingvadóttir frá Akureyrarklúbbnum. Hún sagði m.a. frá mótun hlutverks talskonu soroptimista og mikilvægi þess að soroptimistar láti vita af öllu því góða sem þeir vinna að.

Séra Ólafur J. Borgþórsson flutti okkur hugvekju og sungum við nokkur jólalög. Formaður bar okkur kveðju Lovísu Christiansen frá Hafnarfjarðar- og Garðabæjarklúbbi, en hún sendi okkur kver með ljóðinu Aðventuljós eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson. Sonur Lovísu myndskreytti og var kverið selt til styrktar Krísuvíkursamtökunum.
Systur skiptust á jólapökkum og þar með lauk síðasta fundi vetrarins.