Skip to main content

Hvatningarverðlaunin desember 2020

Hvatningarverðlaundes2020Hvatningarverðlaun Soroptimistaklúbbs Austurlands voru að venju afhent við útskriftarathöfn ME í desember sl. Þau hlaut að þessu sinni Vilborg Björgvinsdóttir.

"Þú og þinn styrkur" - námskeið

hopur namskeiðSoroptimistaklúbbur Austurlands er hluti af alþjóðlegum samtökum kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd, þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því besta sem völ er á. Samtökin vinna m.a. að bættri stöðu stúlkna og kvenna, að mannréttindum öllum til handa sem og jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlegri vináttu og skilningi að leiðarljósi.
Soroptimistar skulu beita sér fyrir:
• Að veita þjónustu í heimabyggð, heimalandi og á alþjóðavettvangi.
Með ofantalin markmið í huga hafði verið lengi á stefnuskrá klúbbsins að bjóða ungum stúlkum upp á sjálfstyrkingarnámskeið og var undirbúningur langt kominn sl vetur þegar við urðum að setja það á ís vegna utanaðkomandi aðstæðna. Loks tókst svo að halda námskeiðið nú 17. okt síðastliðinn.
Námskeiðið hét ,,Þú og þinn styrkur” og var fyrir allar 12 ára stúlkur fæddar 2008 á starfsvæði klúbbsins. Það var haldið í Safnaðarheimili Egilsstaðakirkju, en þar er mjög góð aðstaða fyrir námskeiðshald. Þátttakendur voru 15 og komu frá Egilsstöðum, Fellabæ og Seyðisfirði, engin 12 ára stúlka er á Borgarfirði.

Fjallað var um félagsfærni, samskipti og tilfinningar.  Auk þess var rætt um styrkleika, að setja sér markmið og eiga drauma.

Námskeiðið stóð frá 10 til 16, var alfarið á kostnað og ábyrgð klúbbsins okkar og er vonandi bara fyrsta en ekki eina námskeiðið af þessu tagi.

Leiðbeinendur voru Jónína Lovísa Kristjánsdóttir sérkennari, Eygló Daníelsdóttir iðjuþjálfi og María Ósk Kristmundsdóttir tölvunarfræðingur. Eru tvær þær síðarnefndu meðlimir í Soroptimistaklúbbnum og þótti okkur vel við hæfi að nýta krafta og mannauð klúbbsystra.

Fleiri myndir frá námskeiðinu

 

Hvatningarverðlaun maí 2020

hv 2020Soroptimistaklúbbur Austurlands hefur undanfarið veitt nýstúdínu verðlaun fyrir góðan árangur og seiglu í námi þrátt fyrir erfiðar aðstæður.  Markmið með verðlaununum er að hvetja ungar stúlkur áfram á sinni braut og jafnvel til áframhaldandi náms. Við útskrift Menntaskólans á Egilsstöðum núna í maí hlaut Katrín Ólafía Þórhallsdóttir hvatningarverðlaun klúbbsins. Á meðfylgjandi myndum má sjá Katrínu með verðlaunin en útskriftin var óvenjuleg vegna Covid og voru einungis skólameistari, áfangastjóri og ljósmyndari fyrir utan nýstúdentana sjálfa á staðnum.  Að þessu sinni voru verðlaunin peningagjöf að upphæð kr. 15.000 en oft hefur klúbburinn gefið bók.  

Hvatningarverðlaun desember 2019

hvatn201912Undanfarin ár hefur Soroptimistaklúbbur Austurlands veitt nýstúdínu verðlaun fyrir góðan árangur og seiglu í námi þrátt fyrir erfiðar aðstæður.  Markmið með verðlaununum er að hvetja ungar stúlkur áfram á sinni braut og jafnvel til áframhaldandi náms. Við útskrift Menntaskólans á Egilsstöðum 21. desember 2019 hlaut Berglind Eir Ásgeirsdóttir hvatningarverðlaun klúbbsins. Á meðfylgjandi mynd má sjá skólameistara afhenda verðlaunin fyrir hönd Soroptimistaklúbbs Austurlands.  Að þessu sinni voru verðlaunin peningagjöf að upphæð kr. 15.000 en fram að þessu hefur klúbburinn oftast gefið bók.

Fatapokar fyrir leikskóla

afhending

Soroptimistaklúbbur Austurlands fékk skemmtilegt verkefni nýverið. Það þurfti að búa til fjölnota poka til að nota undir blautu fötin í einum leikskóla. Ráðagóð kona í klúbbnum hafði samband við Sjóvá því hana grunaði að það væru einhverjar fyrningar til af kvennahlaupsbolum. Sjóvá brást vel við og sendi henni vænan slatta og það varð úr að það var stofnuð „saumastofa“ í Fellabænum og framleiddir  á fjórða hundrað pokar.  Ákveðið var að gefa leikskólunum á starfssvæði klúbbsins pokana og voru þeir afhentir leikskólastjórum á fundi þann 5. desember. Við það tækifæri sagði Eygló Daníelsdóttir formaður klúbbsins eftirfarandi:

„Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem vinna að bættri stöðu kvenna og stúlkna í heiminum. Þau eru í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og eiga ráðgefandi fulltrúa þar inni í ýmsum stofnunum þeirra. Soroptimistaklúbbur Austurlands sem við hér erum í, er einn af 19 klúbbum á Íslandi. Verkefni Soroptimista tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og þetta pokaverkefni á einmitt mjög vel heima undir markmiðinu um ábyrga neyslu og framleiðslu. Endurnýting hefur of lengi verið afgangsstærð hjá allt of stórum hópi. Með því að minnka eða sleppa plastpokanotkun drögum við úr mengun sem er farin að hafa allt of mikil áhrif á náttúruna. 

Forsaga þessa verkefnis er að foreldrafélag leikskólans Tjarnarskógar kom að máli við leikskólastjóra til að athuga hvort ekki væri hægt að fá einhver félagasamtök til að sauma taupoka til að fara með blaut föt í heim. Þessir pokar sem eru afhentir núna eru saumaðir upp úr stuttermabolum sem átti að henda en fengu þannig nýtt hlutverk. Það er ósk okkar að þeir nýtist starfsfólki og foreldrum leikskólabarna vel til að bera föt á milli staða.“

Roðagyllum heiminn

 

rg 02Sameinuðu þjóðirnar hafa valið 25. nóvember, dag vitundarvakningar um útrýmingu kynbundins ofbeldis og markar hann jafnframt upphaf 16 daga átaks gegn því. Þessu sérstaka átaki lýkur á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna, 10.desember, sem jafnframt er alþjóðlegur dagur Soroptimista.

Soroptimistar um allan heim hafa tekið höndum saman og ætla að vekja athygli á þessum mannréttindabrotum með sýnilegum hætti og hefja það átak 25.nóvember n.k. Þann dag ætlar Soroptimistaklúbbur Austurlands að  standa fyrir ljósagöngu.  Gangan hefst kl. 17.00 við Egilsstaðakirkju og lýkur við Gistihúsið á Egilsstöðum.  Gistihúsið býður göngufólki upp á upp á heita drykki í lok göngunnar.

Soroptimistasamband Evrópu hefur síðan 2009 beðið borgir að lýsa upp aðalbyggingar sínar með appelsínugulum, roðagylltum lit.  Appelsínugulur litur er tákn átaksins og verðir gengið undir slagorðinu Roðagyllum heiminn.  Kirkjurnar á Egilsstöðum, Borgafirði eystri og Seyðisfirði verða lýstar upp á meðan þetta 16 daga alþjóða átak stendur.  Með þessu móti vill Soroptimistaklúbbur Austurlands vekja athygli á baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.