Hreindýrapaté
Það var handagangur í öskjunni í Kirkjumiðstöðinni á Eiðum helgina 2.-3. nóvember sl. En þá söfnuðust systur í Soroptimistaklúbbi Austurlands saman til að búa til hreindýrapaté. Veður var þokkalegt þennan dag en flughált á vegum. Þó létu sumar systur sig hafa það að koma um langan veg, Tóta keyrði t.d. 40 km. frá Hallormsstað og Lukka og Sigga M. óku frá Seyðisfirði en það eru 35 km. Og Kristjana keyrði lengst allra, um 55 km. veg frá Borgarfirði. Sumar þorðu reyndar ekki alla leið og aðrar leystu málið hreinlega með því að fá sér einkabílstjóra (sá heitir Þorkell og er eiginmaður Lukku). Hreindýrapatéið og sala þess hefur verið árviss liður í fjáröflunarstarfsemi klúbbsins til fjölda ára og hefur því ávallt verið vel tekið og selst vel. Er það sérstaklega ánægjulegt því hreindýrin góðu sem fyrst voru flutt til Íslands á síðari hluta 18. aldar hafa lifað og dafnað á Austurlandi og eru sérstaða þess fjórðungs. Það voru býsna mörg handtökin sem lifrin og spekkið þurftu að fara í gegnum svo að úr þeim yrði kæfa. Það kemur sér vel að eldhúsið í Kirkjumiðstöðinni er vottað og tæki og tól til staðar. Vinnan hófst um kl. 17.00 á laugardegi en þá mættu þær Adda, Sólveig og Kristjana til að undirbúa, hakka niður lifrina og laukinn og taka spekkið úr frosti. Kl. 20.00 héldu þær til síns heima en Kristjana var mætt aftur kl. 7.40 daginn eftir til að koma mjólkinni í hitun og fleira. Adda, Þorbjörg, Sigga Dís og Tóta komu síðan um kl. 9.00 og um 11 leytið var tekið að hræra deig. Gugga, Sólveig og Guðný Anna mættu einnig á svæðið og ennfremur þær Lukka og Sigga M. en þær mynduðu ásamt Siggu Dís eina stöðina í keðju hreindýralifrarinnar í átt að fullbúinni vöru. Vigtuðu þær samviskusamlega 200 gr. af deiginu í hverja dós. Hópurinn naut einnig fulltingis Sighvats, manns Sólveigar Önnu og Skúla, manns Tótu en þeir „lokuðu“ verkinu í bókstaflegum skilningi - með því að setja lok á dósirnar. Og fullyrða má að konurnar í Soroptimistaklúbbi Austurlands séu vel giftar en Þorkell maður Lukku var einnig til aðstoðar allan daginn og vaskaði upp. Það var þreyttur en ánægður hópur sem hélt til síns heima um kvöldið, um 750 dósum af hreindýrapaté ríkari. En patéið verður til sölu hjá systrum nú fram að jólum.