Skip to main content
Kristjana og Tóta hræra í jafning

Hreindýrapaté

Það var handagangur í öskjunni í Kirkjumiðstöðinni á Eiðum helgina 2.-3. nóvember sl. En þá söfnuðust systur í Soroptimistaklúbbi Austurlands saman til að búa til hreindýrapaté. Veður var þokkalegt þennan dag en flughált á vegum. Þó létu sumar systur sig hafa það að koma um langan veg, Tóta keyrði t.d. 40 km. frá Hallormsstað og Lukka og Sigga M. óku frá Seyðisfirði en það eru 35 km. Og Kristjana keyrði lengst allra, um 55 km. veg frá Borgarfirði. Sumar þorðu reyndar ekki alla leið og aðrar leystu málið hreinlega með því að fá sér einkabílstjóra (sá heitir Þorkell og er eiginmaður Lukku). Hreindýrapatéið og sala þess hefur verið árviss liður í fjáröflunarstarfsemi klúbbsins til fjölda ára og hefur því ávallt verið vel tekið og selst vel. Er það sérstaklega ánægjulegt því hreindýrin góðu sem fyrst voru flutt til Íslands á síðari hluta 18. aldar hafa lifað og dafnað á Austurlandi og eru sérstaða þess fjórðungs. Það voru býsna mörg handtökin sem lifrin og spekkið þurftu að fara í gegnum svo að úr þeim yrði kæfa. Það kemur sér vel að eldhúsið í Kirkjumiðstöðinni er vottað og tæki og tól til staðar. Vinnan hófst um kl. 17.00 á laugardegi en þá mættu þær Adda, Sólveig og Kristjana til að undirbúa, hakka niður lifrina og laukinn og taka spekkið úr frosti. Kl. 20.00 héldu þær til síns heima en Kristjana var mætt aftur kl. 7.40 daginn eftir til að koma mjólkinni í hitun og fleira. Adda, Þorbjörg, Sigga Dís og Tóta komu síðan um kl. 9.00 og um 11 leytið var tekið að hræra deig. Gugga, Sólveig og Guðný Anna mættu einnig á svæðið og ennfremur þær Lukka og Sigga M. en þær mynduðu ásamt Siggu Dís eina stöðina í keðju hreindýralifrarinnar í átt að fullbúinni vöru. Vigtuðu þær samviskusamlega 200 gr. af deiginu í hverja dós. Hópurinn naut einnig fulltingis Sighvats, manns Sólveigar Önnu og Skúla, manns Tótu en þeir „lokuðu“ verkinu í bókstaflegum skilningi - með því að setja lok á dósirnar. Og fullyrða má að konurnar í Soroptimistaklúbbi Austurlands séu vel giftar en Þorkell maður Lukku var einnig til aðstoðar allan daginn og vaskaði upp. Það var þreyttur en ánægður hópur sem hélt til síns heima um kvöldið, um 750 dósum af hreindýrapaté ríkari. En patéið verður til sölu hjá systrum nú fram að jólum.

Bókamarkaður 2024

Bókamarkaður 2024

Ein af fjáröflunarleiðum Soroptimistaklúbbs Austurlands hefur verið að setja upp og pakka niður „Bókamarkaðnum“ sem Íslendingum er að góðu kunnur til fjölda ára. Félag íslenskra bókaútgefenda (FÍBÚT) stendur fyrir markaðnum.

Eins og nokkur undanfarin ár fórum við systur til Akureyrar til að aðstoða Kalla okkar við að setja markaðinn upp. Uppsetningin fór fram helgina eftir Norrænu vinadagana í Köben og frágangurinn var svo þremur vikum síðar.  Verkið gekk vel enda við orðnar býsna sjóaðar í þessu.

Góður hópur systra og 2 makar fóru norður og einhentu sér í það að taka upp úr ótal kössum á fjölda bretta og raða á borð og bekki þar sem bókaunnendur gætu svo gengið meðfram úrvalinu og fundið eitthvað lesefni við hæfi hvers og eins. Ekki beið minna verkefni þegar pakkað var niður og þó, það hafði þynnst bókamagnið á borðunum. Þá sem fyrr var röskur hópur systra og nokkurra maka á ferð og gekk verkið mjög vel. Það er ómetanlegt að fá aðstoð frá mágum okkar sem hjálpa okkur möglunarlaust eins og sannir herramenn.

Góður andi ríkti í pökkunarstarfinu, mikið hlegið og spjallað á milli þess sem öll einbeitni var á röðun bóka og skipulag í verkefninu undir styrkri stjórn Kalla og Rúnu Dóru. Alls unnum við í 155 tíma við bókamarkaðinn þetta haustið.
 Segja má að auk þess að afla fjár fyrir góð málefni þá hafi þetta sjálfboðaliðastarf eflt systraþel í klúbbnum, styrkt vinabönd og ný orðið til.

Sala á Kærleikskúlum

Á hverju ári seljum við Kærleikskúluna fyrir Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra.  Við fáum í okkar hlut brot af ágóðanum og höfum fyrir þá fjármuni styrkt ýmis verkefni til stuðnings fötluðum börnum á austurlandi.

Myndin er tekin á Jólamarkaðnum Jólakötturinn, en er haldinn árlega á Héraði.

Bókamarkaður 2023

Eins og nokkur undanfarin ár tókum við systur að okkur vinnu við Bókamarkað FÍBÚT (félags íslenskra bókaútgefenda) á Akureyri.  Uppsetningin fór fram fyrstu helgina í september og frágangurinn var svo rétt eftir miðjan september.  Verkið gekk vel enda við orðnar býsna sjóaðar í þessu.

Asparstiklingar í gróðurhúsinu

Fyrirtækið Jurt ehf. sem á og rekur gróðurhúsin á Valgerðarstöðum í Fellum, bauð okkur verkefni við að klippa og stinga asparstiklingum, svokölluðum sumargræðlingum.  Við tókum verkið að okkur og fengum dágóða fjárhæð fyrir.

Verkið var skemmtilegt og tíminn í gróðurhúsinu fljótur að líða.  Það var samt ekki hægt að segja að það væri snyrtilegt og gott að eiga góða þvottavél heima.

Bókamarkaðurinn 2022

Bókum pakkað í góðum tilgangi – fjáröflun Soroptimistaklúbbs Austurlands 2022

BM 2022 4Ein af fjáröflunarleiðum Soroptimistaklúbbs Austurlands hefur verið að setja upp og pakka niður „Bókamarkaðnum“ sem Íslendingum er að góðu kunnur til fjölda ára. Félag íslenskra bókaútgefenda (FÍBÚT) stendur fyrir markaðnum. Fyrst gerðu systur í klúbbnum þetta þegar markaðurinn kom austur í Egilsstaði en síðan á Akureyri. Hlé varð á um tíma vegna Covid19.

BM 2022 3

Þetta árið kom markaðurinn ekki austur en var settur upp á Akureyri, nánar tiltekið í verslunarrými sem áður hýsti Húsasmiðjuna við Lónsbakka rétt utan Akureyrar. Í kringum tugur systra í Soroptimistaklúbbi Austurlands og nokkrir hjálpsamir makar fóru norður og einhentu sér í það dagana 26. til 28. ágúst að taka upp úr ótal kössum á fjölda bretta og raða á borð og bekki þar sem bókaunnendur gætu svo gengið meðfram úrvalinu og fundið eitthvað lesefni við hæfi hvers og eins. Ekki beið minna verkefni þegar pakkað var niður 11. til 12. september og þó, það hafði þynnst bókamagnið á borðunum, þrátt fyrir að þurft hafi að láta senda meira að sunnan af bókum á meðan á markaðnum stóð. Er það sérlega gleðilegt að skynja þannig áhuga Íslendinga á bókum þrátt fyrir ýmsa umræðu um að bóklestur hafi dregist saman miðað við fyrri tíð.

BM 2022 5Góður andi ríkti í pökkunarstarfinu, mikið hlegið og spjallað á milli þess sem öll einbeitni var á röðun bóka og skipulag í verkefninu, en umsjónarmaður Bókamarkaðarins var Kalli Kr.
 Segja má að auk þess að afla fjár fyrir góð málefni þá hafi þetta sjálfboðaliðastarf eflt systraþel í klúbbnum, styrkt vinabönd og ný orðið til. Tækifærið var notað eftir langar vinnutarnirnar til að borða saman á Akureyri og einnig var farið  í Skógarböðin.