Skip to main content
Það var þéttsetinn salurinn á Gistihúsinu.

Jólafundur 2024

Þann 4. desember s.l. var jólafundur Soroptimistaklúbbs Austurlands haldinn með pompi og pragt á Gistihúsinu á Egilsstöðum, en það rekur ein af systrum okkar, Hulda E. Daníelsdóttir. Systur mættu á Gistihúsið kl. 18.00, margar með menn sína upp á arminn en þeim hafði verið boðið á fundinn líka. Á Gistihúsinu var allt skreytt og jólalegt. Og var fundurinn haldinn í innsta salnum sem hópurinn fékk út af fyrir sig. Kvöldið hófst á því að haldinn var almennur félagsfundur en þar kynnti Arna m.a. nýju Kærleikskúluna sem í þetta sinn er eftir Hildi Hákonardóttur. Var gerður góður rómur að henni og konum fannst hún mjög falleg. Fundurinn var stuttur og var skemmtinefndinni fljótlega gefið orðið það sem eftir lifði kvölds. Og Þórunn formaður fór fram til að sækja eiginmennina sem sátu (prúðir vonandi!) í anddyrinu og biðu eftir að vera kallaðir inn. Fyrst var borin fram graskerssúpa og því næst las Þórunn upp skemmtilegar frásagnir úr bókinni Á arinhellunni eftir Kristján frá Djúpalæk. Sungið var jólalag og eftir það var aðalrétturinn borinn fram, sem var dýrindis nautasteik. Eftir að gestir höfðu gætt sér á henni var komið að fleiri skemmtiatriðum en skemmtinefndin hafði m.a. undirbúið samkvæmisleik sem vakti mikla lukku. Var mikið hlegið og skemmt sér. Þá byrjaði loks gjafaleikurinn sem allir höfðu beðið eftir. Systur höfðu að venju komið með jólapakka og númerum var dreift á hópinn og pakkanúmerin kölluð upp. Það var ekki lítið sem kom úr pökkunum, má þar t.d. nefna jólateppi og jólasokka, smjörhnífa, andlitsmaska, gjafabréf, mozartkúlur, jólaseríur og margt fleira. Enginn fór í jólaköttinn að þessu sinni. Enduðu konur á því að klappa skemmtinefndinni, þeim Huldu, Rúnu Dóru og Kristínu, lof í lófa fyrir afar vel unnin störf. Einstaklega vel var mætt á fundinn og var samróma álit að hann hefði verið mjög skemmtilegur.

Austurlandssystur á Kastrup

Norrænir vinadagar í Kaupmannahöfn 2024

Norrænir vinadagar í Kaupmannahöfn.

Dagana 30. ágúst til 1. september 2024 voru 6 Austurlandssystur ( Arna, Anastasiia, Þorbjörg Gunnars, Sigga Gísla, Bára Mjöll og Yvette) saman á Norrænum vinadögum í Kaupmannahöfn. Gist var á Hótel Cabin sem stóð undir nafninu ( ekki hótel en cabin....) Herbergin voru mjög lítil en þar sem veðrið var alveg frábært kom það ekki að sök.             

Á föstudeginum fóru Anastasiia og Þorbjörg í göngutúr undir leiðsögn um miðborg Kaupmannahafnar á meðan Bára Mjöll og Yvette fóru í UN City og fengu m.a. fræðslu um WFP Nordic ( World Food Programme Nordic) sem var vægast sagt mjög athyglisvert.          Seinnipartinn þann dag var skráning og móttaka í Vartov þar sem Ida Gormsen ( forseti danskra soroptimista) bauð okkur velkomnar með drykk, "pinnamat" og tónlist. Svo var farið í halarófu að Kalvebod bryggju þar sem við fórum í klukkutíma siglingu sem endaði í bráðskemmtilegu vinakvöldi með góðum mat, drykk og dans. Ida Gormsen og 2 aðrar danskar soroptimistar eru í frábærri lítilli hljómsveit sem spilaði af miklum eldmóði. Að lokinni dagskrá kvöldsins var siglt til baka.

Á laugardaginum var svo haldin ráðstefnan með yfirskrift " Women with an agenda" sem hefur verið þýtt sem ,,Konur eiga erindi“ og voru haldnir mjög athyglisverðir fyrirlestrar. Einnig var farið í hópverkefni um gildi Soroptimista og tengdust konur vel saman. Á ráðstefnunni voru skráðar 240 konur frá 5 löndum og vorum við 80 frá Íslandi! Eftir velheppnaða ráðstefnu var farið á hótelið til að gera sig klárar fyrir kvöldverðinn sem var haldinn á veitingastað í Tívolí. Arna Soffía og Þorbjörg Gunnars slógu í gegn í þjóðbúningum sínum, sem þær höfðu lagt á sig að ferðast með í handfarangri frá Íslandi.

Við Austurlandssystur blönduðum geði við aðrar Norðurlandasystur um kvöldið og eftir velheppnað kvöld með miklu spjalli, hlátri og fallegri flugeldasýningu að lokum, fórum við alsælar að sofa, nokkrum norrænum vinkonusystrum ríkari. Sunnudeginum var svo varið í því að versla, hitta börnin sín, hitta frænda sem á ísbúð og fá ókeypis ís eða bara sitja í sólinni og spjalla saman í rólegheitum með smá veigar í glasi.

Þetta voru dýrmætir dagar í Kaupmannahöfn og erum við sem fórum harðákveðnar að mæta á Norræna vinadaga í Turku, Finnlandi árið 2026. Ætlar þú?

Júníferð á Fáskrúðsfjörð

Soroptimistaklúbbur Austurlands lauk starfsvetri sínum þennan vetur með skemmtiferð á Fáskrúðsfjörð miðvikudaginn  12. júní. Reyndar átti að fara í þá ferð viku fyrr, en vegna veðurs og ófærðar á fjallvegum hér eystra þurfti að fresta ferðinni um viku. Við erum ýmsu vanar hvað varðar vetrarfærð og höfum oft þurft að færa fundi til vegna veðurs, m.a.s. maífund sem er alltaf haldinn á Seyðisfirði, en þetta er áreiðanlega í fyrsta skipti sem ekki tekst að halda júnífund á tilsettum tíma vegna færðar. Vonandi verður það líka í eina skiptið. Við fengum dýrindis veður núna, sól og bjartviðri. Við byrjuðum á að skoða Franska safnið á Fáskrúðsfirði, undir skemmtilegri og fróðlegri leiðsögn Fjólu Þorsteinsdóttur safnstjóra, sem leiddi okkur í gegnum húsin og út á bryggju. Franska safnið og Franski spítalinn segir ákaflega vel frá sögu franskra sjómanna við Íslandsstrendur og hvetjum við alla til að skoða safnið og kynna sér þessa sögu. Það er t.d. ákaflega áhrifamikið að ganga í gegnum ,,gólettuna” og ímynda sér líf um borð í þannig skipi, þar sem jafnvel 25-30 manns bjuggu við ömurlegar aðstæður í marga mánuði.  Við enduðum þessa skoðunarferð í kapellunni þar sem Fjóla sagði fleiri sögur og bað okkur að lokum um að syngja eitt lag. Að sjálfsögðu sungum við lagið okkar; Ákallið.

Frá Franska safninu fórum við og hittum handverkskonur í Gallerí Kolfreyju sem er í Gamla Kaupfélagshúsinu við Hafnargötu. Það hús, sem er frá 1895, hefur verið gert upp af miklum myndarskap og er bæði gaman að skoða húsið sem og allt fallega handverkið hjá handverksfólkinu. Loks enduðum við kvöldið á kvöldverði í Café Sumarlínu, fengum þar dýrindis kvöldverð og héldum stuttan fund áður en við kvöddumst og héldum út í íslenska sumarkvöldið.  Gleðilegt sumar, kæru systur.

Teppið góða

Gjöf til Heimahlynningar SAK í minningu sr. Jóhönnu I. Sigmarsdóttur

Systur í Soroptimistaklúbbi Austurlands nýttu tækifærið nú um helgina þar sem margar voru staddar á Akureyri á landssambandsfundi SIÍ og afhentu formlega gjöf til Heimahlynningar SAK sem gefin var í minningu sr. Jóhönnu I. Sigmarsdóttur. Sr. Jóhanna var stofnformaður Soroptimistaklúbbs Austurlands og fyrsti heiðursfélagi klúbbsins. Hún var ætíð vakin og sofin yfir klúbbnum, sinnti ýmsum störfum í nefndum og embættum og var mjög virk í verkefnum. Hún lést eftir stutt en erfið veikindi 26. sept. 2022 og naut góðrar aðhlynningar síðustu vikurnar hjá Heimahlynningu í húsi þeirra í Götu Sólarinnar á Akureyri. Okkur systrum fannst því vel við hæfi að minnast sr. Jóhönnu með þessum hætti. Við þetta tækifæri afhentum við teppi gert úr bútum sem systur í klúbbnum hekluðu og settu saman. Áður hafði klúbburinn afhent fjárupphæð sem safnaðist eftir erfidrykkju sr. Jóhönnu. Þess má geta að á morgun Sumardaginn fyrsta, þann 25. apríl hefði sr. Jóhanna orðið 80 ára og stendur fjölskylda hennar fyrir samveru- og helgistund í Kirkjuselinu í Fellabæ þar sem sr. Jóhönnu verður minnst og Egilsstaðaprestakalli verður færð að gjöf guðfræðibókasafn sr Jóhönnu og föður hennar sr Sigmars Inga Torfasonar en þau voru bæði þjónar kirkjunnar á Austurlandi, Sigmar í 44 ár sem sóknarprestur og prófastur á Skeggjastöðum og Jóhanna sem sóknarprestur og prófastur á Eiðum og síðar á Egilsstöðum í 14 ár. Við í Soroptimistaklúbbi Austurlands minnumst sr.Jóhönnu með virðingu og þökk og söknum hennar sárt.

Heimboð til Lukku

Ein systir okkar í Soroptimistaklúbbi Austurlands, Lukka S. Gissurardóttir á Seyðisfirði, hefur lengi haft þá hugmynd að gaman væri að við systur mundum hittast og eiga góða stund saman utan hefðbundins félagsstarfs á borð við fundi og viðburði. Covid og fleira hefur hamlað því að af gæti orðið. En laugardaginn 13. janúar sl. ákvað Lukka að gera alvöru úr þessu og bjóða systrum heim til sín á Seyðisfjörð þar sem hún býr í stóru og fallegu húsi. Ellefu systur mættu til hennar upp úr klukkan fjögur og tóku með sér ýmislegt gott að borða, svo sem osta, kex, og margt fleira. En Lukka bauð einnig sjálf upp á afar ljúffenga kjötsúpu. Með þessu var drukkið rauðvín og hvítvín sem greitt var af gleðipyngjunni okkar góðu. Systur sátu síðan og spjölluðu saman um alls kyns mál, en eftir að kjötsúpan hafði verið borðuð dró Lukka fram spil sem heitir Húsið. Spilið byggir á spurningum sem sumar eru býsna persónulegar og má svara þeim með setningu sem gefin er neðst í spilinu, ef viðkomandi vill ekki fara út í slíka sálma. En allar systur svöruðu spurningunum út frá eigin brjósti og ræddu þannig fjölmörg mál, sum í alvarlegri kantinum. Lukka talaði seinna um að þetta hefði verið til marks um mikla vináttu og má taka undir þau orð. Alvaran vék svo aftur fyrir skemmtun þegar dregin voru upp brandaraspil sem konur skemmtu sér konunglega yfir. Þorkell maður Lukku stóð vaktina í eldhúsinu og má geta þess að yngsti meðlimur klúbbsins, Anastasiia Hulchenko frá Úkraínu sem aðeins er búin að vera á Íslandi í tæplega tvö ár ákvað að vera honum til aðstoðar. Og er skemmst frá því að segja að þau töluðu saman, á íslenskri tungu, í heilan klukkutíma. Við vorum hreyknar af þessari yngstu systur okkar fyrir þetta afrek. Konur héldu síðan heim eftir dásamlegt kvöld, en fimm fengu gistingu hjá Lukku og fóru ekki fyrr en daginn eftir. Það var einróma álit að þennan viðburð þyrfti að endurtaka síðar.

Öskupokasmiðja og forseti SÍ í heimsókn

Við systur í Soroptimistaklúbbi Austurlands höfum í þónokkur ár verið í samstarfi við Minjasafn Austurlands og boðið upp á öskupokasmiðju rétt fyrir öskudaginn. Þá hjálpum við börnum við að sauma og skreyta öskupoka til að viðhalda þessari gömlu og skemmtilegu hefð.  Við leggjum til allskonar efni og skraut, bönd í snúrur, steina eða málshætti til að setja í pokana og að sjálfsögðu góða títuprjóna sem má beygja saman svo hægt sé að stinga í föt hjá einhverjum góðum.

Miðvikudagurinn 7. febr. var annasamur hjá Soroptimistaklúbbi Austurlands. Þá mættu 3 systur í Safnahúsið þar sem boðið var upp á öskupokasmiðju hjá Minjasafninu og bolluvandagerð á Bókasafninu. Það var líf og fjör í tuskunum og er talið að vel yfir 30 börn, auk nokkurra foreldra, hafi mætt og gert sér einn öskupoka eða fleiri.  Kristjana okkar Björnsdóttir sat við saumavélina og saumaði poka og Lukka og Þorbjörg Gunnars aðstoðuðu börnin við að sauma skraut í pokana og snúa bönd til að þræða í.

Það voru enn að koma börn þegar við urðum að hætta því framundan var klúbbfundur í Hlymsdölum þar sem Sigrún Þorgeirsdóttir forseti SÍ mætti og hélt góða tölu um sögu Soroptimista á Íslandi, gildi okkar og markmið. Að sjálfsögðu fékk Sigrún öskupoka með slaufu í litum okkar Soroptimista til minja um þessa góðu heimsókn til okkar.