Jólafundur 2024
Þann 4. desember s.l. var jólafundur Soroptimistaklúbbs Austurlands haldinn með pompi og pragt á Gistihúsinu á Egilsstöðum, en það rekur ein af systrum okkar, Hulda E. Daníelsdóttir. Systur mættu á Gistihúsið kl. 18.00, margar með menn sína upp á arminn en þeim hafði verið boðið á fundinn líka. Á Gistihúsinu var allt skreytt og jólalegt. Og var fundurinn haldinn í innsta salnum sem hópurinn fékk út af fyrir sig. Kvöldið hófst á því að haldinn var almennur félagsfundur en þar kynnti Arna m.a. nýju Kærleikskúluna sem í þetta sinn er eftir Hildi Hákonardóttur. Var gerður góður rómur að henni og konum fannst hún mjög falleg. Fundurinn var stuttur og var skemmtinefndinni fljótlega gefið orðið það sem eftir lifði kvölds. Og Þórunn formaður fór fram til að sækja eiginmennina sem sátu (prúðir vonandi!) í anddyrinu og biðu eftir að vera kallaðir inn. Fyrst var borin fram graskerssúpa og því næst las Þórunn upp skemmtilegar frásagnir úr bókinni Á arinhellunni eftir Kristján frá Djúpalæk. Sungið var jólalag og eftir það var aðalrétturinn borinn fram, sem var dýrindis nautasteik. Eftir að gestir höfðu gætt sér á henni var komið að fleiri skemmtiatriðum en skemmtinefndin hafði m.a. undirbúið samkvæmisleik sem vakti mikla lukku. Var mikið hlegið og skemmt sér. Þá byrjaði loks gjafaleikurinn sem allir höfðu beðið eftir. Systur höfðu að venju komið með jólapakka og númerum var dreift á hópinn og pakkanúmerin kölluð upp. Það var ekki lítið sem kom úr pökkunum, má þar t.d. nefna jólateppi og jólasokka, smjörhnífa, andlitsmaska, gjafabréf, mozartkúlur, jólaseríur og margt fleira. Enginn fór í jólaköttinn að þessu sinni. Enduðu konur á því að klappa skemmtinefndinni, þeim Huldu, Rúnu Dóru og Kristínu, lof í lófa fyrir afar vel unnin störf. Einstaklega vel var mætt á fundinn og var samróma álit að hann hefði verið mjög skemmtilegur.