Skip to main content
Vinkonur um veröld alla

Vinkonur um veröld alla 2024

Laugardaginn 25. maí vorum við í Soroptimistaklúbbi Austurlands með boð fyrir konur af erlendum uppruna sem búsettar eru á starfssvæði okkar. Þetta er í fjórða sinn sem við bjóðum konum til okkar og heitir verkefnið Vinkonur um veröld alla. Eins og áður var boðið haldið á Seyðisfirði í blíðskaparveðri. Við hittumst í Herðubreið kl. 10:30 þar sem boðið var upp á kaffi og léttar veitingar. Hildur Þórisdóttir systir okkar hélt tölu, bauð konur velkomnar og sagði aðeins frá Soroptimistahreyfingunni og klúbbnum okkar.  Við fengum tónlistarflutning þar sem Hlín Behrens söng nokkur lög við undirleik Mairie Louisa tónlistarkennara. Anastasiia systir okkar sagði hvernig það væri að flytja til Íslands og læra íslensku og kom með nokkur skemmtileg dæmi um tungumálamisskilning. Þórunn formaður sagði líka sögur og hvatti konur til að kynna sér Soroptimistahreyfinguna.  Gestir voru frá 5 löndum: Bandaríkjunum, Króatíu, Úkraínu, Rússlandi og Skotlandi.

Við spjölluðum saman, kynntumst og nutum dagsins saman, allt eins og á að vera og stefnum ótrauðar á að halda þessu verkefni áfram.

Hreinsunardagar í KMA

Eitt af vorverkum okkar er að þrífa Kirkjumiðstöðina á Eiðum utan sem innan.  Í ár dugðu ekki minna en tveir dagar og samtals um 60 vinnustundir í verkið.

Styrkleikar Krabbameinsfélagsins

Við systur tókum þátt í Styrkleikum Krabbameinsfélagsins á Egilsstöðum í lok ágúst.  Þar gengum við í heilan sólarhring ásamt öðrum liðum og lögðum þessu góða málefni lið.

CAT kassar afhentir

Eitt af verkefnum okkar er að styðja grunn- og leikskóla með ýmsum hætti. 

Fyrir nokkrum árum gáfum við Egilsstaðaskóla og Grunnskóla Seyðisfjarðar svokallaða CAT kassa, en þeir eru verkfæri sem auðvelda samskipti við börn.

Nýverið pöntuðum við 3 nýja kassa og afhentum þá í Brúarásskóla, Fellaskóla og Leikskólann Tjarnarskóg á Egilsstöðum. 

Tvær af systrum okkar starfa í Brúarásskóla og tóku við kassanum þangað á síðasta fundi.

Á myndinni má sjá Kristínu Högnadóttur, Guðnýju Ríkharðsdóttur, Þorbjörgu Gunnarsdóttur og Þorbjörgu Garðarsdóttur með einn "kassann".