Skip to main content

Afhending bóka

FB IMG 15514601156881000fyrstu 40

Soroptimistaklúbbur Austurlands afhenti þann 27. febrúar Mæðra- og ungbarnavernd HSA á Egilsstöðum 40 eintök af bókinni “1000 fyrstu dagarnir, barn verður til” eftir Sæunni Kjartansdóttur.  Ljósmæðurnar Ragnhildur Indriðadóttir og Gunnþóra Snæþórsdóttur veittu bókunum viðtöku. Bækurnar eru gjöf til þeirra sem eru að verða foreldrar í fyrsta sinn og að sögn ljósmæðranna er þeim mjög vel tekið. Soroptimistaklúbbur Austurlands hefur áður gefið Mæðra- og ungbarnavernd HSA á starfssvæði klúbbsins 50 eintök af bókinni og mun líklega halda áfram með þetta verðuga verkefni. 

Sundlaugarlyftan

lyfta7Færanleg lyfta fyrir fatlaða við Sundlaug Egilsstaða var keypt og sett upp á starfsárinu. Söfnun fjár með sölu kærleikskúla og jólaóróa hefur staðið yfir í mörg ár og einnig var fé úr verkefnasjóði notað til að klára uppsetninguna. Lyftan og uppsetning hennar kostaði tæpar tvær milljónir króna en einhvern hluta þess kostnaðar mun Fljótsdalshérað taka á sig.   Við höldum svo áfram að selja kúlur og óróa til að skila til baka í verkefnasjóðinn.  Þess má geta að verkefnið fékk góða umfjöllun í fjölmiðlum, bæði sjónvarpi, vefmiðlum og víðar. Nú síðast sendi ég mynd og upplýsingar til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, en þau hafa einmitt lagt áherslu á aðgengismál á sundstöðum á þessu ári og eru að gera könnun þar um.  Hér á eftir fylgir sýnishorn af fjölmiðlaumfjöllun um verkefnið.

Fyrstu 1000 dagarnir

Fyrstu 1000 dagarnir 500x612Í vor var tekin ákvörðun um að kaupa bækur til að afhenda nýbökuðum mæðrum á starfssvæði klúbbsins. Bókin heitir „Fyrstu 1000 dagarnir“ og er eftir Sæunni Kjartansdóttur.  Bækurnar eru komnar austur og verða afhentar í samráði við starfsfólk í mæðravernd á Heilsugæslustöðvunum.

Fyrstu 1000 dagarnir er aðgengileg handbók fyrir foreldra sem byggir á tengslakenningum, nýjustu rannsóknum í taugavísindum og sálgreiningu. Hér eru gefin góð ráð um hvernig foreldrar geta búið sig undir fæðingu barns og annast það og örvað fyrstu árin með það að leiðarljósi að byggja upp heilbrigðan og ástríkan einstakling.

Sæunn Kjartansdóttir er einn af stofnendum Miðstöðvar foreldra og barna sem sérhæfir sig í tengslaeflandi meðferð foreldra og ungbarna. Hún hefur sinnt sálgreiningu í aldarfjórðung og er höfundur bókarinnar Árin sem enginn man.

Hvatningarverðlaun SA

Við höfum undanfarin ár veitt hvatningarverðlaun stúlkum sem útskrifast hafa frá ME þrátt fyrir ýmsa erfiðleika, s.s. sjúkdóma, félagslega erfiðleika eða viðlíka hindranir.  Það var gert í vor einnig og hlutu systurnar Helga Rut og Steinunn Lilja Jóhannesdætur verðlaunin að þessu sinni. 

Endurnýtanlegir innkaupapokar og ávaxtapokar

avaxtapokar2Verkefnið hófst á árinu og var í samráði við aðra sem að því koma ákveðið að byrja á að sauma ávaxtapoka upp úr alls kyns efnum, s.s þunnum gardínum og öðrum léttum efnum. Alls eru systur búnar að sauma ríflega 200 poka og um helmingur þeirra er kominn í notkun. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um framhaldið, eða hvort farið verður í að sauma stærri poka. 

Teppi fyrir sjúka og aðstandendur þeirra

teppi02teppi03Verkefnið hófst á fyrra starfsári og var eitt teppi afhent Landsspítalanum sl. haust. Það fór í hvíldarherbergi fyrir aðstandendur krabbameinssjúkra.  Annað teppi var svo afhent Sjúkrahúsinu í Neskaupsstað seinni hluta vetrar.  Það verður notað á göngudeild lyfjagjafa þar sem sjúklingar þurfa að dvelja í einhverja klukkutíma í hvert sinn. Við eigum töluvert af bútum í þriðja teppið, náum vonandi að klára það í vetur og afhenda Sjúkrahúsinu á Akureyri, þar sem margir austfirðingar fara í meðferðir í hverjum mánuði.