Skip to main content

Bakka- og Selja systur á jólafundi 2017

Sumarlegar göngusystur

Þjóðarblómið holtasóley

    Fjáröflunar- og vinkvennafundur í mars 2024

    Þann 13. mars 2024 héldum við árlegan vinkvenna- og fjáröflunarfund þar sem Rannveig Thoroddsen var veislustjóri.
    Skemmtinefnd tók á móti gestum með fordrykk og fjáröflunarnefnd sá um sölu á söluvörum klúbbsins.
    Gestur fundarins var Sigþrúður Jónsdóttir náttúrufræðingur sem býr í Gnúpverjahreppi og vinnur hjá Landi og skógi. Sigþrúður hefur helgað líf sitt verndun Þjórsárvera og unnið markvisst að vitundarvakningu um einstæða náttúru þess. Sigþrúður sagði frá mikilvægi jarðvegs sem gleymist oft. Hann sér okkur mannfólkinu og dýrum fyrir fæðu, ásamt því að vera undirstaða gróðurs og vistkerfa. Hún sagði jafnframt frá og sýndi myndir úr vinnuferðum, ferðalögum á hálendi og úr Þjórsárverum og nágrenni. Þar lýsti hún stórbrotnu landslagi Þjórsárvera sem einstæðu vistkerfi á heimsvísu en þau eru ein stærsta og jafnframt ein einangraðasta gróðurvin á miðhálendi Íslands, ásamt því að vera eitt helsta varpland heiðagæsar í heiminum.
    Rannveig sagði systrum og gestum þeirra í stuttu máli sögu soroptimista. Rannveig fjallaði um uppbyggingu soroptimistasamtakanna sem alþjóðlegra samtaka og sagði frá verkefnum samtakanna, bæði verkefnum sem Landssambandið hefði tekið þátt í og verkefnum Bakka- og Seljaklúbbs.
    Snæddur var góður matur, sungið saman og dregið í happdrætti með veglegum vinningum.

    Blómasala apríl 2023

    Systur voru með blómasölu til fjáröflunar. Túlípanavendir voru afhentir systrum á aprílfundinum 2023, en þær voru búnar að skrá hve marga vendi þær væru búnar að selja.

    Vinkvenna- og fjáröflunarfundur

    Þann 8. mars 2023 héldum við vinkvenna- og fjáröflunarfund á alþjóðlegum baráttudegi kvenna undir slagorðinu „Hvar kreppir skórinn?” Guðrún Erla Björgvinsdóttir kynnti Soroptimistahreyfinguna af sinni alkunnu snilld, en gestur fundarins var Guðrún Pétursdóttir, lífeðlisfræðingur og prófessor emerita. Guðrún lýsti skilningi sínum á hugtakinu „valdefling“, en það var yfirskrift fundarins. Hún sagði marga tengja það við völd og peninga en telur sjálf að það tengist fremur þróun einstaklingsins gegnum lífið og í samskiptum við aðra. Guðrún starfaði sem forstöðumaður Sjávarútvegsstofnunar Háskóla Íslands sem rann síðar inn í Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og þverfræðilegar rannsóknir við Háskóla Íslands og varð þá forstöðumaður hennar. Hún hefur einnig starfað með Hollvinum Grensásdeildar og er formaður samtakanna. Kjalar Martinsson Kollmar skemmti systrum og vinkonum þeirra með söng og leik. Snæddur var góður matur og dregið í happdrætti. Skemmtinefnd og fjáröflunarnefnd eiga þakkir skyldar fyrir frábæran fund.

     

    Frásögn af fjáröflunarstarfinu

    THjodarblomid verdmidi

    Helstu verkefni fjáröflunarnefndar árið 2023 er sala á söluvörum klúbbsins. 

    Holtasóley nælan er nú þegar komin í umboðsölu hjá Snorrastofu í Reykholti og í Lín Design á Smáratorgi og er verið að kanna hvort fleiri sölustaðir hafi áhuga að taka hana í sölu.

    Ef systur hafa einhver tök eða þekkja til söluaðila endilega kannið hvort áhugi sé fyrir að styrkja við bakið á klúbbnum, nælan kostar 2500 kr og ber ekki virðisaukaskatt og fer allur ágóði til styrktar góðum málefnum.

    More Articles …