Jólafundur 2019
Fimmtudagskvöldið 5. desember mættu systur ásamt gestum í hátíðarskapi á Löngumýri á jólafund.
Eftir að Herdís formaður setti fundinn og skipaði Grétu Sjöfn sem fundarstjóra hitaði Lilja konurnar upp með smá hláturjóga sem setti stemninguna fyrir kvöldið.
Á borðum var dýrindis jólamatur og áttu fundargestir góða kvöldstund, en alls voru mættar 31 kona. Berglind las um jól frá fyrri tíð og fræddi okkur um fjölmarga
jólasveina og mismunandi sveina og menningu á milli landshluta. Út frá því spunnust fjörugar umræður um jólasveina og systkyni þeirra sem eru kannski ekki jafn kunnug í dag og þeir bræður.
Ekki voru hefðbundin pakkaskipti en söfnunarbaukur var á fundinum en ákveðið var að klúbburinn legði fram sambærilega peningaupphæð. Gjöfin rann að þessu sinni til verkefnisins Styrkjum fjölskyldur, sem er í höndum Kirkjunnar, félagsþjónustunnar og Rauða Kross Íslands. Verkefnið snýst um að styrkja fjölskyldur fjárhagslega fyrir jólin. Alls safnaðist 64 þúsund krónur á fundinum sem formaður afhenti séra Sigríði, sem þakkaði fyrir gjöfina og sagði að hún kæmi í góðar þarfir.
Systur í klúbbnum, Lydía, Ingunn, Berglind, Fanney og Sóley áttu stórafmæli á árinu og voru afhentar afmælisgjafir, löber og órói frá Skautmen. Ásdís og Magnea voru ekki mættar og tók formaður að sér að koma afmælisgjöfum til þeirra.
Var þetta virkilega ánægjuleg kvöldstund og fóru fundargestir með jól í hjarta á leið heim.