Betri svefn - grunnstoð heilsu
Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar stóð fyrir fræðandi fyrirlestur mánudagskvöldið 2. nóvember með Dr. Erlu Björnsdóttir.
Erla er stofnandi og stjórnarformaður Betri svefns. Erla lauk B.A prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 2007 og kandídatsprófi frá Háskólanum í Árósum 2009. Erla lauk svo doktorsprófi í líf-og læknavísindum frá Háskóla Íslands í janúar 2015. Í doktorsnámi sínu rannsakaði Erla svefnleysi, andlega líðan og lífsgæði hjá sjúklingum með kæfisvefn.
Erla hefur sérhæft sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi (HAM-S) og vinnur að rannsóknum á því sviði ásamt samstarfsmönnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Erla hefur birt fjölda greina í erlendum ritrýndum tímaritum og einnig skrifað um svefn á innlendum vettvangi.
Erla, ásamt 5 öðrum sérfræðingum, standa á bak við síðuna www.betrisvefn.is sem býður upp á svefnmeðferð rafrænt sem er stöðluð að þörfum hvers og eins. Meðferð Betri svefns er byggð upp á sambærilegan hátt og hefðbundin HAM meðferð við svefnleysi. Helstu kostir vefmeðferðar eru að hún er ódýrari, gagnast öllum óháð búsetu og fólk getur stundað meðferðina hvar og hvenær sem er.
Er fyrirlesturinn sá fjórði í fyrirlestrarröð sem klúbburinn hefur boðið heimafólki á og var haldinn í samstarfi og í húsnæði FNV. Það var frítt inn og allir velkomnir og það má segja að vel var tekið undir þetta boð og mættu um 80 gestir.