Þórunn K. Erlendsdóttir
Þórunn Erlendsdóttir fæddist í Reykjavík 31. júlí 1935. Hún lést á Landspítalanum 28. janúar 2023. Steinunn Anna Einarsdóttir ritaði kveðju fyrir hönd Soroptimistaklúbbs Seltjarnarness.
Þórunn ólst upp í foreldrahúsum við Lindargötu og fluttist svo með fjölskyldu sinni í Ásgarð í Reykjavík. Hún útskrifaðist með verslunarpróf úr Verzlunarskólanum og fór síðan að starfa við skrifstofustörf. Lengst af vann hún hjá Jöklum hf. sem skrifstofustjóri. Síðar starfaði hún sem stuðningsfulltrúi hjá Mýrarhúsaskóla til starfsloka. Í júlí 1967 giftist hún Guðmundi Kristinssyni. Þau byggðu sér hús á Látraströnd, Seltjarnarnesi, og bjuggu þar og síðar á Eiðistorgi til 2021 að þau fluttu rétt yfir landamærin til Reykjavíkur.
Nokkrar myndir af Þórunni með systrum í Soroptimistaklúbbi Seltjarnarness
Kveðja frá Soroptimistaklúbbi Seltjarnarness
Þórunn Erlendsdóttir andaðist hinn 28. janúar sl. Með henni er genginn einn af stofnfélögum Soroptimistaklúbbs Seltjarnarness frá því í september 1977. Þórunn var alltaf öflugur þátttakandi í verkefnum klúbbsins og vann sín störf af dugnaði og gleði. Soroptimistar eiga að markmiði að veita þjónustu hvort sem er í heimabyggð eða á alþjóðavettvangi. Fyrstu árin voru fjáröflunarverkefni klúbbsins nokkuð fyrirhafnarsöm. Í dymbilviku gengum við í hús og seldum páskaliljur. Þar var Þórunn fremst í flokki.
Þórunn var talnaglögg og varð fljótlega gjaldkeri klúbbsins, og síðar var hún kjörin í vandasamara embætti sem gjaldkeri Landssambands Soroptimista. Því embætti gegndi hún eins lengi og félagslög leyfðu. Þórunn var auðug að bjartsýni og því systraþeli sem er aðalsmerki Soroptimista um allan heim, kær vinkona í mörg ár og hennar verður sárt saknað.
Þegar ég kynntist Þórunni fyrst bjó hún ásamt Guðmundi manni sínum og sonum þeirra í einbýlishúsi við Látraströnd á Seltjarnarnesi. Fyrstu árin hélt klúbburinn fundi í heimahúsum, og ég man hvað allt rúmaðist vel heima hjá Þórunni. Þar var glatt á hjalla og gestrisni mikil. Síðar, þegar synirnir voru fluttir að heiman, fengu þau sér minni íbúð en gestrisnin var alltaf söm og jöfn.
Þórunn hafði lítið gaman af því að vera á eftirlaunum með hendur í skauti. Hún fékk sér vinnu í Skólaskjóli Mýrarhúsaskóla. Þar lék hún knattspyrnu við börnin og hélt sér bráðungri. Hún hafði líka verið mikil handknattleikskona á sínum sokkabandsárum, hvað eftir annað Íslandsmeistari með sínu félagi, Ármanni.
Minnisstætt er það þegar Þórunn hélt upp á sjötugsafmæli sitt í sumarbústaðnum sem þau hjónin höfðu þá nýlega eignast. Klúbbsystrum var öllum boðið þangað ásamt eiginmönnum sínum, og þar var veitt af mikilli rausn. Sumarbústaðurinn varð henni hjartfólginn og þar fannst henni augljóslega gott að vera.
Síðastliðin ár átti hún við erfiðan sjúkdóm að stríða en hún lét það lítið á sig fá. Hún var oft á mannamótum, glöð í bragði, og klúbbfundi sótti hún vel. Nú verður þar brestur á. Þau Guðmundur voru kirkjurækin og ég hitti þau reglulega við guðsþjónustur og annað starf í Seltjarnarneskirkju. Nú verður hún kvödd þar í dag. Ég sendi fjölskyldu Þórunnar mínar innilegustu samúðarkveðjur.