Skip to main content

Heimsókn í Bessastaði

Önnur mynd

Þriðja mynd

    Magnea Rósa Tómasdóttir

    Magnea Rósa Tómasdóttir lyfjafræðingur fæddist í Vestmannaeyjum 20. september 1928. Hún lést á Minni-Grund í Reykjavík þann 5. febrúar 2023. Kveðju fyrir hönd Soroptimistaklúbbs Seltjarnarness rituðu Margrét Jónsdóttir og Steinunn Anna Einarsdóttir.

    Rósa kvæntist Gunnari Hafsteini Bjarnasyni, vélaverkfræðingi, 6. september 1958. Rósa varð stúdent frá MR árið 1948 frá máladeild sem dúx og árið 1949 frá stærðfræðideild. Hún útskrifaðist sem Exam. pharm. frá Lyfjafræðingaskóla Íslands árið 1951 og sem Cand. pharm. frá Danmarks pharmaceutiske højskole 1954. 

    Rósa var aðstoðarlyfjafræðingur í Apóteki Vestmannaeyja 1951-1952 og lyfjafræðingur í sama apóteki 1954-1955. Hún starfaði sem lyfjafræðingur í Laugavegsapóteki 1955-1960, Ingólfs Apóteki 1962-1963, sem staðgengill lyfsala í apóteki Vestmannaeyja sumrin 1960-1963 og sem lyfjafræðingur í Vesturbæjar Apóteki 1963-1983. Rósa var lyfsali í Nesapóteki á Seltjarnarnesi 1983-1999. Rósa sat í stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands frá 1970-1975 og sem formaður 1971-1972.

    Rósa með systrum úr Soroptimistaklúbbi Seltjarnarness við afhendingu styrkjar til Barna- og unglingageðdeildar Landspítala, Bugl

    Bugl

    Kveðja frá Soroptimistaklúbbi Seltjarnarness

    Það er skammt stórra högga á milli. Magnea Rósa Tómasdóttir, stofnfélagi í Soroptimistaklúbbi Seltjarnarness, lést hinn 5. febrúar síðastliðinn á 95. aldursári. Þegar fregnin um lát hennar barst vorum við nýbúnar að kveðja annan stofnfélaga.

    Rósa var máttarstólpi í klúbbnum okkar og við gátum alltaf treyst því að hún legði eitthvað gott til málanna. Hún var litrík og skarpgáfuð kona og á fundum okkar kom hún gjarnan með snarpar athugasemdir litaðar af leiftrandi kímni.

    Rósa var líka máttarstólpi í sínu sveitarfélagi. Hún stofnaði apótek á Seltjarnarnesi, það fyrsta í 150 ár, en vagga lyfjafræði á Íslandi var í Nesi við Seltjörn. Um árabil var hún apótekari á Eiðistorgi. Oft gátum við soroptimistasystur hitt hana þar og þegið góð ráð.

    Rósa var virk í klúbbnum svo lengi sem heilsan leyfði. Eftirminnileg er ferð klúbbsins til Ítalíu sumarið 2007 og hve ánægjulegt það var að hún og Gunnar maður hennar skyldu geta tekið þátt í henni, en þá var Gunnar orðinn heilsutæpur. Það tókst vel með dyggri aðstoð Áslaugar dóttur þeirra sem ferðaðist með þeim. Þetta voru dagar vináttu og gleði sem gott er að minnast að leiðarlokum.

    Síðustu árin bjó Rósa á Skólabraut 3, þar sem eru íbúðir aldraðra á Seltjarnarnesi. Þar tók hún þátt í félagsstarfi, stundaði meðal annars bókband um hríð. Alls staðar var nærvera hennar upplífgandi og skemmtileg.

    Við kveðjum Rósu með söknuði, blessuð sé minning hennar.