Skip to main content

Roðagylltar Grafarvogssystur

RoðagylltarÞema nóvemberfundar hjá Grafarvogsklúbbi var appelsínugulur klæðnaður og fylgihlutir.  

Soroptimistaklúbbur Grafarvogs hyggst senda fyrirtækjum og stofnunum í hverfinu beiðni um að taka þátt í átakinu ,,Roðagyllum heiminn" á þann hátt að lýsa upp byggingar eða tendra appelsínugul ljós.  Grafarvogsblaðið ætlar að birta grein um átakið og systur ætla að vera duglegar að minna á það m.a á Facebooksíðum sínum.

Afhending styrks til Kvennaathvarfsins

Á vorfundi Grafarvogssystra þann 8. júní fór fram styrkveiting til nýbyggingar Kvennaathvarfsins. Þær Sigþrúður Guðmundsdóttir og Eygló Harðardóttir tóku við gjöf Soroptimistaklúbbs Grafarvogs fyrir hönd Kvennaathvarfsins, að andvirði einni milljón.  Peningagjöf þessi er til að styrkja athvarf við byggingu áfangaheimilis og stuðla þannig að nýjum tækifærum þeirra sem hafa þolað heimilsofbeldi.  Á meðfylgjandi mynd eru þær Jóhanna Eirný Hilmarsdóttir formaður Grafarvogssystra og Ásdís Þórðardóttir fyrrverandi formaður með þeim Sigþrúði og Eygló.

Afhending styrks

Grafarvogsklúbbur roðagyllir heiminn.

Á nóvemberfundi Grafarvogsklúbbs klæddust systur roðagylltum fötum til að minna á alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi.

Námsstyrkur SIE

30. janúar 2017

Þórunn og Þóra Mynd fyrir SIEÁ síðasta ári, 2016, hlaut Þóra Hafdís Arnardóttir námsstyrk frá SIE. 

Þóra sótti um styrkinn í gegnum Grafarvogsklúbb. Hún stundar masternám í arkitektúr í Barcelóna.

Á myndinni er hún með formanni klúbbsins, Þórunni Kristjánsdóttur. Þóra Hafdís er dóttir Fanneyjar Kristjánsdóttur, klúbbsystur okkar.

Þóra Hafdís mætti á fund hjá okkur og kynnti verkefnin sín sem sjá má á vefsíðu hennar hér að neðan.

Við óskum Þóru Hafdísi til hamingju með styrkinn.

Vefur Þóru
www.thoraha.com

Styrkurinn SIE Scholarship

Grafarvogsklúbbur

Soroptimistaklúbbur Grafarvogs var stofnaður 3. september 1994 og fagnar því 25 ára afmæli í ár.

Fyrsti formaður var Sigríður Ingvarsdóttir og er hún enn í klúbbnum.

Klúbburinn heldur mánaðarlega fundi annan mánudag í mánuði kl. 18:30 í Borgum í Grafarvogi. 10 fundir eru haldnir á ári og er lögð áhersla á að hafa þá fjölbreytilega. Fyrir utan almenna félagsfundi eru gestafundir þar sem klúbbar skiptast á heimsóknum, vinnustaðafundir á vinnustað systra og einn skemmtifundur er að vori þar sem gjarnan er farið út í náttúruna. Í gegnum tíðina hafa verið haldnir sérstakir fjárföflunarfundir t.d. bingó og vinkvennafundir, fræðslufundir um ýmis málefni þar sem gestir koma með uppbyggileg erindi eða systur fræða hvor aðra. Að auki er Landssambandsfundur haldinn að vori þar sem allir klúbbar eiga fulltrúa og er jafnframt aðalfundur Soroptimistasambands Íslands og að hausti er Haustfundur sem er eins konar uppskeruhátíð þar sem konur koma saman, segja frá starfi klúbbanna, gleðjast og efla vináttu og systraþel.

Áherslur í styrkveitingum Grafarvogsklúbbs eru að leggja fé til góðra málefna innanlands með megináherslu á heimabyggð og taka þátt í verkefnum á vegum Landssambands Soroptimista innanlands og á alþjóðavetvangi.
Af verkefnum í heimabyggð má nefna stuðning við fötluð ungmenni á Gylfaflöt, sambýli kvenna að Vættaborgum, heimili kvenna með Alzheimer í Foldabæ ásamt fjárhagsaðstoð við fjölskyldur í hverfinu vegna sérstakra erfiðleika sem komið hafa upp. Einnig færum við formönnum nemendaráða grunnskólanna í Grafarvogi bókagjöf við útskrift að vori.

Vinaklúbbur erlendis er Soroptimistaklúbbur í Ikast á Jótlandi og hefur hann komið tvisvar í heimsókn til Íslands og Grafarvogsklúbbur farið einu sinni í heimsókn til þeirra.

Í dag eru 22 systur í klúbbnum og formaður er Kristín S Björnsdóttir.

Október 2021