ROÐAGYLLUM HEIMINN- BURTU MEÐ OFBELDI
Soroptimistar á Akranesi og nágrenni hafa í ár tekið höndum saman með Soroptimistasystrum um land allt við að vekja athygli á mikilvægi þess að vinna markvisst að útrýmingu kynbundins ofbeldis.
Nú stendur yfir 16 daga ákall Sameinuðu þjóðanna (SÞ), þar sem ríki, stofnanir, samtök, fyrirtæki og einstaklingar eru hvött til að taka þátt í því að draga athygli almennings að þessari vá; þessum alvarlegu mannréttindabrotum. Þetta er árvisst átak sem hefst 25. nóvember, degi sem Sameinuðu þjóðirnar völdu sem alþjóðlegan dag vitundarvakningar um ofbeldi gegn stúlkum og konum. Því lýkur á mannréttindadegi SÞ 10. desember, sem jafnframt er alþjóðlegur dagur Soroptimista.
Táknlitur átaksins er appelsínugulur, litur vonar. Á ensku er slagorðið Orange the world eða Roðagyllum heiminn. Liturinn var valinn til að minna okkur á að eftir sólsetur rís sólin upp að nýju. Það má því víða sjá roðagyllt hús, tanka og torg í tilefni þessa mikilvæga málefnis og ljósagöngur farnar í bæjum og borgum.