Skip to main content

Blómin frá Espiflöt

Við opnun Sigurhæða

Haustkransagerð

Gróðursetning í júní

Undirritun samnings við Árborg

    Norrænir vinadagar í Kaupmannahöfn 2024

    462538958 1595566971310543 461715571232173761 nTíu systur úr Suðurlandsklúbbi sóttu heim Norræna Vinadaga í Kaupmannahöfn 30. ágúst til 1. sept. Dagskrá föstudagsins var einkar vönduð og má þar nefna gönguferð um gömlu Kaupmannahöfn, siglingu á síkjunum og veglegan  kvöldverð á veitingastaðnum Halvandet sem er til húsa í gamalli byggingu, sem herinn nýtti hér á árum áður.  Á laugardeginum voru haldnir fyrirlestrar á ensku um málefni sem varða konur m.a. um hvernig háttar til um réttindastöðu kvenna, um konur og frið í heiminum og konur og sjálfbærni.  Voru þeir í alla staði vandaðir og innihaldsríkir enda fluttir af fólki sem stendur framarlega í réttindabaráttu kvenna. Suðurlandssystur voru að vonum ánægðar með vinadagana og ekki spillti fyrir að veðrið var yndislegt.

    Landssambandsfundur á Akureyri 2024

    437601052 10227682379196951 883566364688205378 n

    Suðurlandssystur, 15 talsins, sóttu Akureyri heim 19.-21. apríl til að sækja Landssambandsfund SÍ. Hápunktur fundarins var þegar Sigrún Þorgeirsdóttir, núverandi forseti SÍ, afhenti Hildi Jónsdóttur forsetakeðju SÍ. Soroptimistaklúbbur Suðurlands er stoltur af sinni konu og óskar henni innilega til hamingju. Sigríður Þórarinsdóttir hlaut kosningu sem ritari SÍ , Jóhanna Ólafsdóttir gjaldkeri klúbbsins verður endurskoðandi reikninga SÍ og formaður klúbbsins, Ingibjörg Stefánsdóttir, hlaut kosningu í sjóðanefnd. Þess skal getið að sölubás klúbbsins vakti athygli fyrir m.a. brúsa, olíur og konfekt.

    Hildur hjá SÞ í New York

    Hildur Jónsdóttir, verkefnastjóri Sigurhæða og verðandi forseti Soroptimistasambands Íslands, fór ásamt Hafdísi Karlsdóttur, forseta Evrópusambands Soroptimista á fund hjá kvennanefnd Sameinuðu Þjóðanna sem haldinn var 11. til 22. mars. Þemað var Hröðum árangri í baráttunni fyrir kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna með því að ráðast gegn fátækt og styrkja stofnanir og fjármögnun þeirra með kynjasjónarmið að leiðarljósi.
    Kvennanefndin  vinnur að framgangi markmiða um jafnrétti kynjanna og jafna stöðu þeirra, skrásetur raunveruleika kvenna um allan heim og mótar viðmið um fullt jafnrétti og valdeflingu kvenna. Árið 1996 var nefndinni enn fremur falið að vinna að því að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið inn í allar stefnur S.þ. og allar stofnanir þeirra. Jafnframt hefur hún forystu um að fylgjast með framgangi og innleiðingu Peking-áætlunarinnar svokölluðu frá 1995 S.þ. Hún stendur árlega fyrir tveggja vikna fundi í höfuðstöðvunum í New York, þar sem ýmsar stofnanir S.þ. eru með dagskrár og fulltrúar stjórnvalda, stofnana, frjálsra félagasamtaka og grasrótarhreyfinga eru kallaðir til leiks. Fundurinn er vettvangur fyrir aðildarríkin til að koma saman, hugsa í lausnum, deila reynslu og aðferðum við að auka jafnrétti og styrkja stöðu kvenna og stúlkna í heiminum. Fundurinn er sá fjölsóttasti sinnar tegundar í heiminum öllum. (mikið stytt útgáfa af grein Hildar í Fregnum, apríl 2024)

    Sigurhæðir í nýju húsnæði

    374978950 10226561736261578 5080240116225122470 nSigurhæðir fluttu 2. september 2023 í Heiðmörk 1a, Selfossi, skammt frá fyrri heimkynnum. Nýja húsnæðið er rúmgott og bjart og rúmar mjög vel starfsemina. Nú geta allar meðferðarfreyjurnar fjórar verið með skjólstæðinga hjá sér samtímis, gott pláss er fyrir alla hópavinnu og sömuleiðis getur kyrrðarjógað farið fram í húsinu.
    Við aðstandendur Sigurhæða horfum bjartsýnum augum til framtíðar og erum þakklátar fyrir þær frábæru móttökur sem Sigurhæðir hafa fengið allt frá upphafi, bæði meðal skjólstæðinga okkar svo og meðal þeirra sem hafa styrkt okkur gegnum tíðina.
    Minna má á heimasíðu Sigurhæða: sigurhaedir.is, en þar má finna upplýsingar um starfsemina og einnig er þar krækja þar sem hægt er að panta viðtal og önnur krækja fyrir þau sem vilja styrkja Sigurhæðir eða gerast velunnarar þeirra.

    Landssambandsfundur á Selfossi 2023

    343127007 934615667692358 3462533291807309953 nLandssambandsfundurinn var haldinn að þessu sinni á Hótel Selfossi. Alls 219 systur úr öllum klúbbum landsins sátu fundinn. Suðurlandssystur buðu kvöldið áður til móttöku í Sumarliðabæ, sem er hestabúgarður í einkaeigu í Rangárvallasýslu. Hjónin sem hann reka sýndu í verki stuðning sinn við Sigurhæðir, verkefni Suðurlandssystra, með því að fella niður húsaleigu fyrir móttökuna. Í Sumarliðabæ buðu systur upp á ýmsar kræsingar og léttvín. Skemmtiatriðin voru tvíþætt, annars vegar riðu þeir Ólafur Ásgeirsson og sonur hans áreynslulaust um svæðið í höllinni á glæsilegum gæðingum. Hins vegar söng Herdís Rútsdóttir nokkur lög við undirspil Alexanders Freys Olgeirssonar. Óhætt er að segja að góð stemning hafi myndast og systur skemmt sér vel saman á glæsilegum hestabúgarði.

    Afmælishátíð Sigurhæða

    338484587 995948408053112 4515698426425121676 nÞann 19. mars 2023 var haldin hátíð í tilefni þess að tvö ár voru liðin frá opnun Sigurhæða. Klúbbsystur fjölmenntu ásamt mökum í Risið þar sem afmælið var haldið hátíðlegt, og þangað mættu líka verkefnisstjórn Sigurhæða og bæjarstjórar Árborgar og Hveragerðis, þau Fjóla St. Kristinsdóttir og Geir Sveinsson. Einnig heiðraði Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrsti þingmaður Suðurlandskjördæmis okkur með nærveru sinni ásamt systur sinni, Aldísi Hafsteinsdóttur, sveitarstjóra Bláskógabyggðar. Á hátíðinni var undirritaður samningur við Árborg um árlegan fastan styrk til næstu þriggja ára. Ragnhildur Gröndal söngkona söng nokkur ljúflingslög við gítarundirleik eiginmanns síns, Guðmundar Péturssonar. Léttar veitingar voru í boði og var það samdóma álit okkar klúbbsystra að vel hefði  tekist til við að fagna þessum tímamótum.