Skip to main content

Þú og þinn styrkur 2021

namsk1Námskeiðið Þú og þinn styrkur var haldið þ. 16. október síðastliðinn. Það er í annað sinn sem 12 ára stúlkum í Múlaþingi var boðið að taka þátt í því á vegum klúbbsins.Það var haldið í Hlymsdölum að þessu sinni og mættu 15 stúlkur úr þremur skólum. Fyrir utan okkur þrjár sem kenndum á námskeiðinu voru nokkrar vaskar systur sem sáu um veitingarnar og voru til taks ef eitthvað kæmi upp á.

Fyrir hádegi byrjaði Jónína Lovísa Kristjánsdóttir sérkennari á því að fara um víðan völl í spjalli um samskipti. Til dæmis hvernig við ósjálfrátt lesum í áætlanir annarra, hvernig líkamsstaða og raddblær skipta máli. Skoðuð voru atriði sem við höfum í huga til að passa í hópinn eins og samvinnu og málamiðlun og hvernig ekki þarf alltaf að segja allt sem við hugsum til að særa ekki aðra. Fórum yfir hvernig sambönd okkar við fólk eru mismunandi eftir því hvort það er fjölskylda, kunningjar, vinir eða þessir örfáu sem eru traustir vinir. Einnig var farið yfir það að segja nei. Í lokin var rætt um tilfinningar og stærð vandamála. Sum virðast svo stór en eru það kannski ekki þegar við erum búin að skoða það nánar. Þetta var einnig gert með spilum og leikjum.

Í hádeginu var svo ljúffengt kjúklingasalat frá Bókakaffi sem féll vel í kramið hjá þeim.

Eftir hádegi tók undirrituð við og það var farið nánar í vináttu, hvernig hún getur flokkast, hvað lýsir góðri vináttu og hvernig við förum að þvi að eignast og halda vinum. Þær fóru í smá leik sem snerist um að treysta félaganum. Eftir það færðum við okkur yfir í styrkleika. Þær skráðu fimm atriði sem þeim fannst þær vera góðar í eða væru þeirra jákvæðu hliðar. Þær sögðu svo frá þeim yfir hópinn og við töluðum um mismunandi styrkleika og hvernig við getum nýtt þá á öðrum stöðum. Einnig skráðu þær einn veikleika sem við ræddum og fundum annað hvort aðstæður þar sem þetta væri ekki veikleiki heldur eitthvað gott eða fundum leiðir í sameiningu til að bæta eða styrkja þessa veiku hlið.

Að loknu kaffihléi var tekinn smá dans með Maríu Ósk Kristmundsdóttur og svo farið í drauma þeirra og markmið. Þær teiknuðu, eða skrifuðu ef þær vildu frekar, mynd af sér fullorðnum að gera það sem þær dreymir um og skráðu markmið sem þær vilja ná.Einnig voru þær að átta sig á hvernig maður skipuleggur leiðina að markmiðunum sínum.

Að lokum svöruðu þær spurningum á blaði (nafnlaust) um hvað þeim fannst um námskeiðið. Þær voru allan tímann áhugasamar og duglegar, kurteisar og samstarfsfúsar.

Við kennararnir höfðum mjög gaman af þessu og lærðum sjálfar ýmislegt! Okkur langaði að fá viðhorf foreldranna líka og báðum þá að senda okkur svör við þremur spurningum því við viljum alltaf reyna að gera betur. Því miður hafa engin svör borist.

Ég held að við allar sem komum að þessu viljum að þetta verði árvisst verkefni hjá klúbbnum okkar. Þetta er bæði mikilvægt verkefni og skemmtilegt og greinilegt að stúlkurnar eru að fá heilmikið út úr þessu. Aðstaðan í Hlymsdölum er líka mjög góð, tölva og skjávarpi, nóg pláss til að fara í leiki og gott eldhús til að vinna í.

Fyrir hönd kennaranna, Eygló Daníelsdóttir.