Gróðursetning fyrir bjartri framtíð 19. júní 2021
Í vetur, þegar byrjað var að undirbúa gróðursetningu um allt land í tilefni af 100 ára afmæli Soroptimistasamtakanna, kom sú tillaga fram á klúbbfundi að við í Austurlandsklúbbi myndum gróðursetja okkar plöntur í skriðusvæðið á Seyðisfirði. Við undirbúning kom í ljós að jarðvegurinn er of laus í sér til að unnt sé að gróðursetja í hann strax. Því ákváðum við að kaupa frekar 700 plöntur í haust, eina plöntu fyrir hvern íbúa Seyðisfjarðar, fela Beggu okkar að geyma þær í vetur og gróðursetja þær síðan næsta vor. Vonumst við til að fá afmarkaðan skika til að planta í og hugsa um í framtíðinni.
Við fórum nokkrar á Seyðisfjörð 19. júní, fengum eitt sitkagreni hjá "Kela hennar Lukku", settum það í góðan pott og fólum þeim hjónum að fóstra það til vorsins. Tréð á sér nokkra sögu, því fyrir nokkrum árum þegar við systur tókum að okkur að flokka plöntur í Gróðrarstöðinni Barra, hirti Keli slatta af "munaðarleysingjum", þ.e. plöntum sem annars hefði verið hent. Okkar tré er eitt þeirra.
Eftir táknræna athöfn í bakgarðinum hjá Lukku og Kela, fórum við í gönguferð um skriðusvæðið og enduðum í kaffi á Hótel Öldu.