Vinkonur um veröld alla
Það hefur lengi verið draumur okkar í Soroptimistaklúbbi Austurlands að koma á tengslum við erlendar konur á svæðinu og höfum við horft til Söguhrings erlendra kvenna á höfuðborgarsvæðinu sem fyrirmynd. Nokkrar tillögur voru um nafn á þetta verkefni okkar og varð fyrir valinu Vinkonur um veröld alla. Stofnaður var undirbúningshópur sem hefur fundað reglulega í vetur til að koma þessu verkefni á laggirnar. Í mars reyndum við að bjóða konum í kvöldkaffi á Egilsstöðum, en vegna m.a. covid takmarkana og dræmrar þátttöku, var því aflýst. Þá var ákveðið að stefna að góðri laugardagsstund á Seyðisfirði með vorinu í samstarfi við Rauða Krossinn í Múlasýslu. Dagsetningin 29. maí varð fyrir valinu og systur buðu konum hver fyrir sig. Hist var í bíósalnum í Herðubreið þar sem boðið var upp á kaffi og kökur og tónlistarflutning. Um tíu erlendar konur mættu og engin þeirra var frá sama landi. Þær voru m.a. frá Bandaríkjunum, Englandi, Þýskalandi, Úkraínu, Danmörku og Lettlandi svo eitthvað sé nefnt. Yvette Lau sagði skemmtilegar sögur af eigin upplifun að vera útlendingur á Íslandi að læra íslensku og tónlistarfólk flutti nokkur lög. Svo var setið og spjallað og drukkið kaffi. Þessi vinkonustund mæltist vel fyrir og voru flestar konurnar á því að það væri gaman að endurtaka leikinn síðar og var Bókasafn Seyðisfjarðar nefnt sem næsti fundarstaður.