Norrænir vinadagar í Kaupmannahöfn 2024
Norrænir vinadagar í Kaupmannahöfn.
Dagana 30. ágúst til 1. september 2024 voru 6 Austurlandssystur ( Arna, Anastasiia, Þorbjörg Gunnars, Sigga Gísla, Bára Mjöll og Yvette) saman á Norrænum vinadögum í Kaupmannahöfn. Gist var á Hótel Cabin sem stóð undir nafninu ( ekki hótel en cabin....) Herbergin voru mjög lítil en þar sem veðrið var alveg frábært kom það ekki að sök.
Á föstudeginum fóru Anastasiia og Þorbjörg í göngutúr undir leiðsögn um miðborg Kaupmannahafnar á meðan Bára Mjöll og Yvette fóru í UN City og fengu m.a. fræðslu um WFP Nordic ( World Food Programme Nordic) sem var vægast sagt mjög athyglisvert. Seinnipartinn þann dag var skráning og móttaka í Vartov þar sem Ida Gormsen ( forseti danskra soroptimista) bauð okkur velkomnar með drykk, "pinnamat" og tónlist. Svo var farið í halarófu að Kalvebod bryggju þar sem við fórum í klukkutíma siglingu sem endaði í bráðskemmtilegu vinakvöldi með góðum mat, drykk og dans. Ida Gormsen og 2 aðrar danskar soroptimistar eru í frábærri lítilli hljómsveit sem spilaði af miklum eldmóði. Að lokinni dagskrá kvöldsins var siglt til baka.
Á laugardaginum var svo haldin ráðstefnan með yfirskrift " Women with an agenda" sem hefur verið þýtt sem ,,Konur eiga erindi“ og voru haldnir mjög athyglisverðir fyrirlestrar. Einnig var farið í hópverkefni um gildi Soroptimista og tengdust konur vel saman. Á ráðstefnunni voru skráðar 240 konur frá 5 löndum og vorum við 80 frá Íslandi! Eftir velheppnaða ráðstefnu var farið á hótelið til að gera sig klárar fyrir kvöldverðinn sem var haldinn á veitingastað í Tívolí. Arna Soffía og Þorbjörg Gunnars slógu í gegn í þjóðbúningum sínum, sem þær höfðu lagt á sig að ferðast með í handfarangri frá Íslandi.
Við Austurlandssystur blönduðum geði við aðrar Norðurlandasystur um kvöldið og eftir velheppnað kvöld með miklu spjalli, hlátri og fallegri flugeldasýningu að lokum, fórum við alsælar að sofa, nokkrum norrænum vinkonusystrum ríkari. Sunnudeginum var svo varið í því að versla, hitta börnin sín, hitta frænda sem á ísbúð og fá ókeypis ís eða bara sitja í sólinni og spjalla saman í rólegheitum með smá veigar í glasi.
Þetta voru dýrmætir dagar í Kaupmannahöfn og erum við sem fórum harðákveðnar að mæta á Norræna vinadaga í Turku, Finnlandi árið 2026. Ætlar þú?