Skip to main content

Júníferð á Fáskrúðsfjörð

Soroptimistaklúbbur Austurlands lauk starfsvetri sínum þennan vetur með skemmtiferð á Fáskrúðsfjörð miðvikudaginn  12. júní. Reyndar átti að fara í þá ferð viku fyrr, en vegna veðurs og ófærðar á fjallvegum hér eystra þurfti að fresta ferðinni um viku. Við erum ýmsu vanar hvað varðar vetrarfærð og höfum oft þurft að færa fundi til vegna veðurs, m.a.s. maífund sem er alltaf haldinn á Seyðisfirði, en þetta er áreiðanlega í fyrsta skipti sem ekki tekst að halda júnífund á tilsettum tíma vegna færðar. Vonandi verður það líka í eina skiptið. Við fengum dýrindis veður núna, sól og bjartviðri. Við byrjuðum á að skoða Franska safnið á Fáskrúðsfirði, undir skemmtilegri og fróðlegri leiðsögn Fjólu Þorsteinsdóttur safnstjóra, sem leiddi okkur í gegnum húsin og út á bryggju. Franska safnið og Franski spítalinn segir ákaflega vel frá sögu franskra sjómanna við Íslandsstrendur og hvetjum við alla til að skoða safnið og kynna sér þessa sögu. Það er t.d. ákaflega áhrifamikið að ganga í gegnum ,,gólettuna” og ímynda sér líf um borð í þannig skipi, þar sem jafnvel 25-30 manns bjuggu við ömurlegar aðstæður í marga mánuði.  Við enduðum þessa skoðunarferð í kapellunni þar sem Fjóla sagði fleiri sögur og bað okkur að lokum um að syngja eitt lag. Að sjálfsögðu sungum við lagið okkar; Ákallið.

Frá Franska safninu fórum við og hittum handverkskonur í Gallerí Kolfreyju sem er í Gamla Kaupfélagshúsinu við Hafnargötu. Það hús, sem er frá 1895, hefur verið gert upp af miklum myndarskap og er bæði gaman að skoða húsið sem og allt fallega handverkið hjá handverksfólkinu. Loks enduðum við kvöldið á kvöldverði í Café Sumarlínu, fengum þar dýrindis kvöldverð og héldum stuttan fund áður en við kvöddumst og héldum út í íslenska sumarkvöldið.  Gleðilegt sumar, kæru systur.