Heimboð til Lukku
Ein systir okkar í Soroptimistaklúbbi Austurlands, Lukka S. Gissurardóttir á Seyðisfirði, hefur lengi haft þá hugmynd að gaman væri að við systur mundum hittast og eiga góða stund saman utan hefðbundins félagsstarfs á borð við fundi og viðburði. Covid og fleira hefur hamlað því að af gæti orðið. En laugardaginn 13. janúar sl. ákvað Lukka að gera alvöru úr þessu og bjóða systrum heim til sín á Seyðisfjörð þar sem hún býr í stóru og fallegu húsi. Ellefu systur mættu til hennar upp úr klukkan fjögur og tóku með sér ýmislegt gott að borða, svo sem osta, kex, og margt fleira. En Lukka bauð einnig sjálf upp á afar ljúffenga kjötsúpu. Með þessu var drukkið rauðvín og hvítvín sem greitt var af gleðipyngjunni okkar góðu. Systur sátu síðan og spjölluðu saman um alls kyns mál, en eftir að kjötsúpan hafði verið borðuð dró Lukka fram spil sem heitir Húsið. Spilið byggir á spurningum sem sumar eru býsna persónulegar og má svara þeim með setningu sem gefin er neðst í spilinu, ef viðkomandi vill ekki fara út í slíka sálma. En allar systur svöruðu spurningunum út frá eigin brjósti og ræddu þannig fjölmörg mál, sum í alvarlegri kantinum. Lukka talaði seinna um að þetta hefði verið til marks um mikla vináttu og má taka undir þau orð. Alvaran vék svo aftur fyrir skemmtun þegar dregin voru upp brandaraspil sem konur skemmtu sér konunglega yfir. Þorkell maður Lukku stóð vaktina í eldhúsinu og má geta þess að yngsti meðlimur klúbbsins, Anastasiia Hulchenko frá Úkraínu sem aðeins er búin að vera á Íslandi í tæplega tvö ár ákvað að vera honum til aðstoðar. Og er skemmst frá því að segja að þau töluðu saman, á íslenskri tungu, í heilan klukkutíma. Við vorum hreyknar af þessari yngstu systur okkar fyrir þetta afrek. Konur héldu síðan heim eftir dásamlegt kvöld, en fimm fengu gistingu hjá Lukku og fóru ekki fyrr en daginn eftir. Það var einróma álit að þennan viðburð þyrfti að endurtaka síðar.