Öskupokasmiðja og forseti SÍ í heimsókn
Við systur í Soroptimistaklúbbi Austurlands höfum í þónokkur ár verið í samstarfi við Minjasafn Austurlands og boðið upp á öskupokasmiðju rétt fyrir öskudaginn. Þá hjálpum við börnum við að sauma og skreyta öskupoka til að viðhalda þessari gömlu og skemmtilegu hefð. Við leggjum til allskonar efni og skraut, bönd í snúrur, steina eða málshætti til að setja í pokana og að sjálfsögðu góða títuprjóna sem má beygja saman svo hægt sé að stinga í föt hjá einhverjum góðum.
Miðvikudagurinn 7. febr. var annasamur hjá Soroptimistaklúbbi Austurlands. Þá mættu 3 systur í Safnahúsið þar sem boðið var upp á öskupokasmiðju hjá Minjasafninu og bolluvandagerð á Bókasafninu. Það var líf og fjör í tuskunum og er talið að vel yfir 30 börn, auk nokkurra foreldra, hafi mætt og gert sér einn öskupoka eða fleiri. Kristjana okkar Björnsdóttir sat við saumavélina og saumaði poka og Lukka og Þorbjörg Gunnars aðstoðuðu börnin við að sauma skraut í pokana og snúa bönd til að þræða í.
Það voru enn að koma börn þegar við urðum að hætta því framundan var klúbbfundur í Hlymsdölum þar sem Sigrún Þorgeirsdóttir forseti SÍ mætti og hélt góða tölu um sögu Soroptimista á Íslandi, gildi okkar og markmið. Að sjálfsögðu fékk Sigrún öskupoka með slaufu í litum okkar Soroptimista til minja um þessa góðu heimsókn til okkar.