Bókamarkaður 2024
Bókamarkaður 2024
Ein af fjáröflunarleiðum Soroptimistaklúbbs Austurlands hefur verið að setja upp og pakka niður „Bókamarkaðnum“ sem Íslendingum er að góðu kunnur til fjölda ára. Félag íslenskra bókaútgefenda (FÍBÚT) stendur fyrir markaðnum.
Eins og nokkur undanfarin ár fórum við systur til Akureyrar til að aðstoða Kalla okkar við að setja markaðinn upp. Uppsetningin fór fram helgina eftir Norrænu vinadagana í Köben og frágangurinn var svo þremur vikum síðar. Verkið gekk vel enda við orðnar býsna sjóaðar í þessu.
Góður hópur systra og 2 makar fóru norður og einhentu sér í það að taka upp úr ótal kössum á fjölda bretta og raða á borð og bekki þar sem bókaunnendur gætu svo gengið meðfram úrvalinu og fundið eitthvað lesefni við hæfi hvers og eins. Ekki beið minna verkefni þegar pakkað var niður og þó, það hafði þynnst bókamagnið á borðunum. Þá sem fyrr var röskur hópur systra og nokkurra maka á ferð og gekk verkið mjög vel. Það er ómetanlegt að fá aðstoð frá mágum okkar sem hjálpa okkur möglunarlaust eins og sannir herramenn.
Góður andi ríkti í pökkunarstarfinu, mikið hlegið og spjallað á milli þess sem öll einbeitni var á röðun bóka og skipulag í verkefninu undir styrkri stjórn Kalla og Rúnu Dóru. Alls unnum við í 155 tíma við bókamarkaðinn þetta haustið.
Segja má að auk þess að afla fjár fyrir góð málefni þá hafi þetta sjálfboðaliðastarf eflt systraþel í klúbbnum, styrkt vinabönd og ný orðið til.