• Útskriftarverðlaun

 • Könglaklenging

 • Sundlaugarlyftan

 • Plöntuflokkun

  Gróðursetning fyrir bjartri framtíð 19. júní 2021

  sey1906 1Í vetur, þegar byrjað var að undirbúa gróðursetningu um allt land í tilefni af 100  ára afmæli Soroptimistasamtakanna, kom sú tillaga fram á klúbbfundi að við í Austurlandsklúbbi myndum gróðursetja okkar plöntur í skriðusvæðið á Seyðisfirði.  Við undirbúning kom í ljós að jarðvegurinn er of laus í sér til að unnt sé að gróðursetja í hann strax.  Því ákváðum við að kaupa frekar 700 plöntur í haust, eina plöntu fyrir hvern íbúa Seyðisfjarðar, fela Beggu okkar að geyma þær í vetur  og gróðursetja þær síðan næsta vor.  Vonumst við til að fá afmarkaðan skika til að planta í og hugsa um í framtíðinni.

  Við fórum nokkrar á Seyðisfjörð 19. júní, fengum eitt sitkagreni hjá "Kela hennar Lukku", settum það í góðan pott og fólum þeim hjónum að fóstra það til vorsins.  Tréð á sér nokkra sögu, því fyrir nokkrum árum þegar við systur tókum að okkur að flokka plöntur í Gróðrarstöðinni Barra, hirti Keli slatta af "munaðarleysingjum", þ.e. plöntum sem annars hefði verið hent.  Okkar tré er eitt þeirra.

  Eftir táknræna athöfn í bakgarðinum hjá Lukku og Kela, fórum við í gönguferð um skriðusvæðið og enduðum í kaffi á Hótel Öldu.

  Júní fundur 2021

  juni fundurSíðasti fundur klúbbsins fyrir sumarfrí var haldinn í Kirkjumiðstöðinni á Eiðum þann 2. júní sl. Loksins eftir erfiðan vetur og marga tölvufundi, gátu klúbbsystur hist, fundað og borðað saman. Það var afskaplega ljúf stund og notalegt að hittast og spjalla. Eftir stuttan fund var mökum og öðrum gestum sem komu með systrum boðið í salinn og síðan var borðað en matur var pantaður frá Austur-Asíu fyrirtækinu sem starfrækt er í flugteríunni á Egilsstöðum. Afskaplega góður matur og nóg fyrir alla og vel það.

  Eftir matinn steig Yvette á stokk og sagði okkur skemmtisögur af því hvernig ýmislegt getur misskilist þegar fólk flytur á milli landa og er ekki alveg búið að ná tökum á nýju tungumáli. Þá tók Jón Arngrímsson fram gítarinn og spilaði. Arna sat við tölvuna og varpaði söngtextum upp á tjald, saman gátu þannig allir sungið. Kaffi og konfekt rann ljúflega niður með söngnum sem stóð fram eftir kvöldinu.

  Vorhreinsun í Kirkjumiðstöð 2021

  kma2021Eitt af árlegum verkefnum klúbbsins okkar er að hreinsa til í Kirkjumiðstöðinni, þegar líða tekur á vorið og áður en sumarbúðir Þjóðkirkjunnar hefjast. Hefur klúbburinn gert þetta í mörg ár að launum fyrir afnot af fundaraðstöðu yfir vetrartímann.

  Að þessu sinni hittumst við nokkrar systur ásamt tveimur mökum þann 31. maí, brettum upp ermar og þrifum bæði innandyra og hreinsuðum stétt og beð úti við.  Veðurguðirnir voru nokkuð til friðs, það var þurrt og sæmilega hlýtt í skjóli undir suðurvegg. Á meðan hreinsun stóð var Rúna Dóra í eldhúsinu að elda handa okkur dýrindis steik og meðlæti. Það var ljúft að setjast niður saman og borða góðan mat og spjalla svolítið í leiðinni.  Það var orðið alltof langt síðan systur höfðu haft tök á þannig nærandi samveru, útafdottlu…

  Vinkonur um veröld alla

  vuva2Það hefur lengi verið draumur okkar í Soroptimistaklúbbi Austurlands að koma á tengslum við erlendar konur á svæðinu og höfum við horft til Söguhrings erlendra kvenna á höfuðborgarsvæðinu sem fyrirmynd. Nokkrar tillögur voru um nafn á þetta verkefni okkar og varð fyrir valinu Vinkonur um veröld alla. Stofnaður var undirbúningshópur sem hefur fundað reglulega í vetur til að koma þessu verkefni á laggirnar. Í mars reyndum við að bjóða konum í kvöldkaffi á Egilsstöðum, en vegna m.a. covid takmarkana og dræmrar þátttöku, var því aflýst.  Þá var ákveðið að stefna að góðri laugardagsstund á Seyðisfirði með vorinu í samstarfi við Rauða Krossinn í Múlasýslu. Dagsetningin 29. maí varð fyrir valinu og systur buðu konum hver fyrir sig.  Hist var í bíósalnum í Herðubreið þar sem boðið var upp á kaffi og kökur og tónlistarflutning. Um tíu erlendar konur mættu og engin þeirra var frá sama landi. Þær voru m.a. frá Bandaríkjunum, Englandi, Þýskalandi, Úkraínu, Danmörku og Lettlandi svo eitthvað sé nefnt. Yvette Lau sagði skemmtilegar sögur af eigin upplifun að vera útlendingur á Íslandi að læra íslensku og tónlistarfólk flutti nokkur lög. Svo var setið og spjallað og drukkið kaffi.  Þessi vinkonustund mæltist vel fyrir og voru flestar konurnar á því að það væri gaman að endurtaka leikinn síðar og var Bókasafn Seyðisfjarðar nefnt sem næsti fundarstaður.