Fatapokar fyrir leikskóla
Soroptimistaklúbbur Austurlands fékk skemmtilegt verkefni nýverið. Það þurfti að búa til fjölnota poka til að nota undir blautu fötin í einum leikskóla. Ráðagóð kona í klúbbnum hafði samband við Sjóvá því hana grunaði að það væru einhverjar fyrningar til af kvennahlaupsbolum. Sjóvá brást vel við og sendi henni vænan slatta og það varð úr að það var stofnuð „saumastofa“ í Fellabænum og framleiddir á fjórða hundrað pokar. Ákveðið var að gefa leikskólunum á starfssvæði klúbbsins pokana og voru þeir afhentir leikskólastjórum á fundi þann 5. desember. Við það tækifæri sagði Eygló Daníelsdóttir formaður klúbbsins eftirfarandi:
„Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem vinna að bættri stöðu kvenna og stúlkna í heiminum. Þau eru í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og eiga ráðgefandi fulltrúa þar inni í ýmsum stofnunum þeirra. Soroptimistaklúbbur Austurlands sem við hér erum í, er einn af 19 klúbbum á Íslandi. Verkefni Soroptimista tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og þetta pokaverkefni á einmitt mjög vel heima undir markmiðinu um ábyrga neyslu og framleiðslu. Endurnýting hefur of lengi verið afgangsstærð hjá allt of stórum hópi. Með því að minnka eða sleppa plastpokanotkun drögum við úr mengun sem er farin að hafa allt of mikil áhrif á náttúruna.
Forsaga þessa verkefnis er að foreldrafélag leikskólans Tjarnarskógar kom að máli við leikskólastjóra til að athuga hvort ekki væri hægt að fá einhver félagasamtök til að sauma taupoka til að fara með blaut föt í heim. Þessir pokar sem eru afhentir núna eru saumaðir upp úr stuttermabolum sem átti að henda en fengu þannig nýtt hlutverk. Það er ósk okkar að þeir nýtist starfsfólki og foreldrum leikskólabarna vel til að bera föt á milli staða.“